Fótbolti

Arnar Þór segir orð Guðjóns hrein og klár ósannindi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.
Íslenska karlalandsliðið hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar. EPA-EFE/TOBIAS SCHWARZ / POOL

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir ekkert hæft í sögusögnum um meint ósætti Gylfa Þórs Sigurðssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen. Þá segir hann að það hafi ekki verið í boði að velja framherjann Viðar Örn Kjartansson í íslenska landsliðið að þessu sinni.

Í hlaðvarpinu The Mike Show í gær ýjaði Guðjón Þórðarson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, að því að Gylfi hefði ekki gefið kost á sér í landsliðið vegna ósættis við Eið Smára, aðstoðarþjálfara íslenska liðsins.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vísaði þessum sögusögnum á bug í skriflegu svari til Vísis í gær og samkvæmt heimildarmönnum Vísis, bæði úr herbúðum KSÍ og aðilum tengdum Gylfa Þór sjálfum, eiga fullyrðingar Guðjóns ekki við rök að styðjast.

Við sama tón kveður í viðtali RÚV við Arnar Þór í dag. Þar segir hann orð Guðjóns vera hrein og klár ósannindi.

„Ég ber virðingu fyrir Guðjóni Þórðarsyni og lék undir hans stjórn á sínum tíma í landsliðinu en svona ummæli eru sorgleg og þetta eru bara hrein og klár ósannindi,“ sagði Arnar Þór við RÚV.

„Það heyrðist nú bara á þessari umræðu og þessum vettvangi sem ummælin féllu. Þetta er fyrir neðan allar hellur og dæmir sig svolítið sjálft. Það er ekkert til í þessu.“

Arnar Þór hefur fengið talsvert mikla gagnrýni fyrir að velja Viðar Örn ekki í landsliðshópinn, sérstaklega eftir að Björn Bergmann Sigurðarson hrökk úr skaftinu.

Samkvæmt því sem RÚV hefur eftir Arnari Þór leyfði félag Viðars Arnar, Vålerenga í Noregi, honum ekki að fara í landsliðsverkefnið í þessum mánuði.

„Það var aldrei í boði að velja Viðar Örn. Vålerenga leyfði honum ekki að fara í þetta verkefni. Þetta var svipað og með Björn Bergmann hjá Molde nema í tilviki Viðars lokaði Vålerenga bara á dæmið strax,“ sagði Arnar Þór.

Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum í undankeppni HM 2022 án þess að skora mark.

Ísland mætir Liechtenstein í Vaduz í þriðja leik sínum í undankeppninni á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

Guðni vísar fullyrðingum Guðjóns á bug

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir ekkert til í þeim sögusögnum um að Gylfi Þór Sigurðsson hafi ekki gefið kost á sér í A-landsliðið í leikina gegn Þýskalandi, Rúmeníu og Liechtenstein af öðrum en uppgefnum ástæðum.

Guð­jón ýjar að ó­sætti milli Gylfa og Eiðs Smára

Guðjón Þórðarson, fyrrum landsliðsþjálfari, ýjaði að því í hlaðvarpsþættinum The Mike Show að Gylfi Þór Sigurðsson hafi ekki gefið kost á sér í A-landsliðið vegna stöðu Eiðs Smára Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×