Norsku meistararnir hafa síðustu vikur verið við æfingar og keppni á Marbella á Spáni en nú hefur ein af skærustu stjörnum liðsins yfirgefið herbúðirnar án þess að láta kóng né prest vita.
Daninn Kasper Junker fór á kostum á síðustu leiktíð, í mögnuðum deildarsigri Bodø/Glimt, og hefur norsku meisturunum borist nokkur tilboð í framherjann sem þeir hafa neitað.
Junker hefur verið allt annað en sáttur við framgöngu stjórnarmanna norska liðsins og þegar þeir neituðu tilboði frá Japan um helgina, ákvað Junker að nú væri nóg boðið. Hann yfirgaf æfingarbúðirnar.
„Ég get ekki verið hérna lengur,“ sagði Junker í samtali við Avisa Nordland og tók taxa frá hótelinu. Annar norskur miðill, Nettavisen, greinir frá því að það verði nánast ómögulegt fyrir Junker að snúa aftur í æfingabúðirnar vegna kórónuveirureglna.
Frode Thomassen er framkvæmdastjóri norska liðsins og hann staðfesti í samtali við TV2 að Daninn hafi yfirgefið æfingabúðirnar án þess að láta neinn hjá félaginu vita af ferðum sínum.
„Við sögðum Kasper frá tilboðinu. Að hann hafi yfirgefið hótelið er leiðinlegt og ekki ásættanlegt. Hann er með samning við Glimt. Þetta kom mér á óvart að hann hafi farið og ég heyrði fyrst af þessu á sunnudagskvöldið,“ sagði Frode.
Frode bætti því einnig við að tilboðinu hefði verið hafnað vegna tímasetningarinnar. Það styttist í norsku deildina og erfitt yrði fyrir Bodø/Glimt að finna mann í stað Kaspers.