Enski boltinn

Shaw þjakaður af samviskubiti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Shaw lagði upp mark í endurkomuleiknum með enska landsliðinu.
Luke Shaw lagði upp mark í endurkomuleiknum með enska landsliðinu. getty/Srdjan Stevanovic

Luke Shaw sér mikið eftir því að hafa dregið sig ítrekað út úr enska landsliðshópnum og þar með brugðist landsliðsþjálfaranum Gareth Southgate.

Shaw lék sinn fyrsta landsleik síðan 2018 þegar England vann Albaníu, 0-2, í undankeppni HM 2022 á sunnudaginn. Shaw lagði fyrra mark Englendinga upp fyrir Harry Kane.

Shaw viðurkennir, og sér mikið eftir því, að hafa dregið sig oft og iðulega út úr enska landsliðshópnum á síðustu árum.

„Ég hugsaði ekki mikið út í þetta á sínum tíma en núna vil ég bara gleyma mistökunum sem ég hef gert. Gareth hefur gert það og við einbeitum okkur bara að framtíðinni, og því sem er að gerast núna,“ sagði Shaw sem hefur leikið einkar vel með Manchester United í vetur.

Hann segir að hann hafi ekki getað hætt að hugsa um mistökin sem hann hafi gert þegar hann var valinn í enska landsliðið áður fyrr.

„Ég dró mig bara út úr hópnum þegar ég mætti á svæðið. Á þessum tíma var ég kannski ekki í mínu besta ásigkomulagi en undanfarin tvö ár hefur ég hugsað svo mikið um þetta. Þetta er það sem ég sé mest eftir, og að bregðast Gareth. Ég reyndi að láta hann vita að hlutirnir hefðu breyst og hann sagðist hafa valið mig út frá því hvernig ég hef spilað,“ sagði hinn 25 ára Shaw.

England mætir Póllandi í þriðja leik sínum í undankeppni HM á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×