Óvissa ríkti um stöðuna á Aroni Einari Gunnarssyni, Jóhanni Berg Guðmundssyni, Birkir Bjarnasyni og fleirum eftir leikinn við Armeníu á sunnudag. Kolbeinn Sigþórsson og Ragnar Sigurðsson höfðu meiðst, og Albert Guðmundsson var kominn í leikbann.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari ákvað því að kalla á fjóra fyrrverandi lærisveina sína úr U21-landsliðinu, sem þar af leiðandi misstu af lokaleiknum á EM í gær. Þegar á hólminn var komið var bara þörf fyrir þrjá.
Sjúkrateymið vann frábært starf
„Við þurftum að taka ákvörðun sama kvöld og leikurinn við Armeníu kláraðist. Þá vorum við með þrjá leikmenn meidda og aðra þrjá mjög tæpa, og þurftum að taka ákvörðun sama kvöld. Við vorum hræddir um að við værum að taka of fáa úr U21-hópnum og yrðum ekki með fullan hóp. Síðan vann okkar sjúkrateymi frábært starf og náði að gera þá leikfæra sem voru tæpir. Þá vorum við með einum of marga leikmenn,“ sagði Arnar á blaðamannafundi.
„Ég tel samt að þetta hafi verið mjög góður landsleikjagluggi í þróun Willums. Hann spilaði tvo leiki á EM og náði svo að vera með okkur í aðdraganda alvöru undankeppnisleik sem er mjög mikilvægt. Að mínu mati var þetta fullkomin lausn fyrir hann.“

En var erfitt að tilkynna Willum að hann yrði utan hóps?
„Það var ekkert erfitt. Ég útskýrði þetta fyrir honum nákvæmlega eins og ég útskýri þetta núna. Hann stóð sína plikt vel með U21-liðinu og við völdum hann með það í huga að hann yrði í hópnum okkar. En það er líka mikilvægt fyrir hann að vera í kringum allt hérna, kynnast okkar reynslumiklu leikmönnum og því hvernig allt gengur fyrir sig í A-landsliðinu. Hann skildi þessa niðurstöðu mjög vel þó að hann væri svekktur,“ sagði Arnar.
Alfons kominn of langt fyrir U21-landsliðið
Alfons Sampsted missti af EM eftir að hafa leikið lykilhlutverk í undankeppninni með U21-landsliðinu. Arnar segir Alfons einfaldlega orðinn A-landsliðsmann og ekki hafi verið spurning um að velja hann í hópinn, þó að hann hafi aðeins spilað einn leik af þremur, gegn Þýskalandi.
„Fyrir Alfons er það að mínu mati þannig að hann var kominn of langt. Hann spilaði alla leiki í Noregi í fyrra og varð meistari, og hann og Birkir Már eru bara okkar hægri bakverðir. Það var ekki möguleiki á að skilja hann eftir, enda spilaði hann á móti Þýskalandi. Ég skil samt alveg pælingarnar [um að Alfons hefði ef til vill frekar átt að fara á EM]. Það er ekkert eitt rétt svar en ég er ánægður með hvernig við gerðum þetta,“ sagði Arnar.