Schalke hefur leikið í efstu deild Þýskalands í 33 ár en í vetur hefur allt gengið á afturfótunum. Schalke hefur aðeins unnið tvo leiki af 30 og er langneðst, með 13 stig og þar með 13 stigum á eftir næstu liðum. Með tapinu í gær voru örlögin svo endanlega ráðin.
Á bilinu 500-600 stuðningsmenn Schalke biðu eftir leikmönnum þegar rúta þeirra kom að leikvangi félagsins, eftir tapið í Bielefeld. Nokkrir svartir sauðir úr röðum stuðningsmanna fóru yfir strikið og köstuðu meðal annars eggjum í leikmenn.
Lögreglan í Gelsenkirchen segir að kveikt hafi verið á blysum við leikvang Schalke strax eftir tapið í gær. „Þegar að liðið kom svo heim og yfirgaf rútuna brutust út alvarleg mótmæli. Eggjum var kastað að leikmönnum og ókvæðisorð hrópuð að þeim,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunnar sem náði þó fljótlega stjórn á stöðunni.
Schalke á einn öflugasta stuðningsmannahóp þýskra félaga og vanalega mæta yfir 60 þúsund manns á heimaleiki liðsins.
Schalke, sem varð í 2. sæti þýsku deildarinnar árið 2018, hefur verið með fimm þjálfara á þessari leiktíð og fengið á sig 76 mörk, fleiri en nokkurt lið á þessari öld. Félagið hefur sjö sinnum unnið meistaratitil en það tókst síðast árið 1958.