Enski boltinn

Gylfi Þór með hærri ein­kunn en allir leik­menn Arsenal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór var óheppinn að skora ekki í gær.
Gylfi Þór var óheppinn að skora ekki í gær. EPA-EFE/Justin Setterfield

Gylfi Þór Sigurðsson átti fínan leik er Everton vann Arsenal 1-0 á Emirates-vellinum í gær. Bernd Leno stal fyrirsögnunum með klaufalegu sjálfsmarki sínu en Gylfi Þór var nálægt því að brjóta ísinn.

Gylfi Þór átti skot í slá úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik en annars var leikurinn stál í stál nær allan tímann. Eins og áður sagði skoraði Leno klaufalegt sjálfsmark eftir fyrirgjöf Richarlison.

Á tölfræðivefnum WhoScored er það Richarlison sem er valinn maður leiksins með 7.7 í einkunn. Gylfi Þór Sigurðsson fær 7.0 í einkunn en Dani Ceballos var hæstur allra í liði Arsenal með 6.9 í einkunn.

Gylfi Þór var með 84 prósent heppnaðar sendingar, átti tvö skot – þar af annað í slá – og tapaði boltanum aldrei. Hann fær þó aðeins sex í einkunn í staðarblaðinu Liverpool Echo.

„Átti skot í slá í fyrri hálfleik og eftir nokkra vænlega spilkafla var hann hljóðlátur í síðari hálfleik,“ segir í umfjöllun blaðsins.

Gylfi Þór vakti þó athygli að leik loknum er hann var fyrstur allra til að hugga Leno sem virtist nær óhuggandi er hann ráfaði í átt að búningsklefum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×