Fótbolti

Bayern vann fyrri leikinn gegn Chelsea

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fyrirliðinn Lina Magull í baráttunni. Hún lagði upp sigurmark Bayern.
Fyrirliðinn Lina Magull í baráttunni. Hún lagði upp sigurmark Bayern. Getty Images/Christian Kaspar-Bartke

Bayern München vann 2-1 sigur á Chelsea í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta í Bæjaralandi í dag. Liðin mætast að nýju í Lundúnum eftir viku.

Bæði lið hafa átt góðu gengi að fagna á leiktíðinni og eru á toppi sinna deilda, Bayern með tveggja stiga forskot á Wolfsburg í Þýskalandi, og Chelsea sömuleiðis með tveggja stiga forskot á Manchester City á Englandi.

Búist var því við hörkuleik en hin tvítuga Sydney Lohmann kom Bæjurum í forystu eftir tólf mínútna leik. Þýska landsliðskonan Melanie Leupolz, sem lék með Bayern frá 2014 allt þar til hún skipti til Chelsea fyrir yfirstandandi leiktíð jafnaði hins vegar fyrir Chelsea tíu mínútum síðar.

1-1 stóð í hléi en eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik kom sænska landsliðskonan Hannah Glas Bayern yfir á ný eftir stoðsendingu fyrirliðans Linu Magull. Mörkunum fjölgaði ekki frekar og 2-1 úrslit leiksins, Bayern í vil.

Íslenska landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat allan leikinn á varamannabekk Bayern München.

Fyrr í dag skildu Paris Saint-Germain og Barcelona jöfn, 1-1, í París í hinni undanúrslitaviðureigninni.


Tengdar fréttir

Barcelona náði útimarki í París

Paris Saint-Germain og Barcelona skildu jöfn, 1-1, í fyrri leik liðanna í Meistaradeild kvenna í fótbolta í dag. Útivallarmarkið gæti reynst Barcelona dýrmætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×