Hjörtur Hermannsson kom Bröndby yfir er liðið heimsótti Randers. Tosin Kehinde jafnaði metin fyrir heimamenn og staðan enn 1-1 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Vito Hammershoy-Mistrati skoraði tvívegis fyrir Randers í upphafi síðari hálfleiks og brekkan orðin brött fyrir Bröndby.
Mikael Uhre fékk gullið tækifæri til að minnka muninn á 69. mínútu en hann brenndi þá af vítaspyrnu. Simon Hedlund náði að minnka muninn í 3-2 fjórum mínútum síðar.
Tobias Klysner gulltryggði sigur heimamanna með marki undir lok leiks. Lokatölur 4-2 Randers í vil sem þýðir að Midtjylland getur náð fjögurra stiga forystu á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar með sigri á Nordsjælland síðar í dag.
Silkeborg vann 1-0 sigur á Fredericia þökk sé sjálfsmarki leikmanns Fredericia. Patrik Sigurður Gunnarsson var á sínum stað í marki Silkeborg. Hann hefur nú leikið 11 leiki fyrir félagið, tíu af þeim hafa unnist og þá hefur hann haldið hreinu í alls níu leikjum. Ótrúleg tölfræði hjá íslenska U-21 landsliðsmarkverðinum.

Elías Rafn Ólafsson, annar markvörður íslenska U-21 landsliðsins, varði mark Fredericia í dag. Stefán Teitur Þórðarson var einnig í byrjunarliði Silkeborg en fór meiddur af velli eftir rúmlega hálftíma leik.
Silkeborg er komið með sjö stiga forskot á Esbjerg í baráttunni um 2. sæti dönsku B-deildarinnar. Liðið stefnir því hraðbyr á dönsku úrvalsdeildina.