Í myndbandi sem birt var á miðlinum, ef svo má kalla, er honum lýst sem vettvangi þar sem hægt er að tjá sig „frjálslega og örugglega“. Honum er sömuleiðis lýst sem „vita frelsis“ á tímum þöggunar og lyga.
Trump er þó sá eini sem getur tjáð sig þar og lesendur geta eingöngu deilt færslunum á öðrum miðlum, enn sem komið er.
Í rauninni er um síðu að ræða þar sem Trump getur birt vangaveltur sínar og yfirlýsingar í stuttum færslum sem líkjast tístum. Stuðningsmenn hans geta svo dreift þeim á Twitter og Facebook.
Miðillinn ber nafnið „From the desk of Donald J. Trump“, eða „frá skrifborði Donald J. Trump“. Enn sem komið er er eingöngu hægt að nálgast miðilinn í vafra en ekki símaforritum.
Í öðrum færslum, sem eru dagsettar frá síðustu dögum, fer Trump hörðum orðum um Repúblikanana Liz Cheney og Mitt Romney. Hann kallar Cheney stríðsmangara og Romney ræfilstusku.
Í frétt Fox News, sem sagði fyrst frá nýja miðli Trump, segir að hann byggi á kerfi sem var þróað af Brad Parscale, fyrrverandi kosningastjóra Trumps. Trump hefur heitið því að koma eigin samfélagsmiðli á laggirnar en ekki er ljóst hvort þetta sé liður í þeirri áætlun eða sérstakur vettangur.
Heimildarmenn miðilsins úr búðum forsetans fyrrverandi segja miðlinum ætlað að tryggja það að Trump geti auðveldlega náð til stuðningsmanna sinna.