Enski boltinn

Höfum ekki náð þessum úr­slitum áður svo við hljótum að vera gera eitt­hvað rétt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp var mjög sáttur með frammistöðu Roberto Firmino í kvöld.
Klopp var mjög sáttur með frammistöðu Roberto Firmino í kvöld. EPA-EFE/Peter Powell

Jurgen Klopp var eðlilega sáttur með sigur sinna manna á Old Trafford í kvöld. Hann sagði sigurinn hafa verið það sem liðið þurfti á að halda. Leiknum lauk með 4-2 sigri Liverpool og var fyrsti sigur liðsins á heimavelli Manchester United síðan 2014.

„Þetta var einmitt það sem við þurftum. Við erum undir mikilli pressu og þurfum að vinna leiki til að eiga möguleika á að komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Við komum hingað og mættum lið sem hefur gengið frábærlega undanfarið,“ sagði Klopp eftir leik.

„Þetta var erfiður leikur og við byrjuðum ekki vel. Við áttum erfitt með að verjast á vængjunum, þeir tvöfölduðu á okkur þar og það tók okkur tíma að venjast því. Þegar við náðum því þá vorum við komnir með yfirhöndina og skoruðum tvívegis. Allir vita að þetta Man United er venjulega betra í síðari hálfleik á þessari leiktíð. Þeim tekst að snúa leikjum sér í hag en við komum í veg fyrir það í kvöld.“

„Við spiluðum vel í upphafi síðari hálfleiks og skoruðum þriðja markið, síðan var þetta opinn leikur. Það verður mikil spenna þegar eitt lið er að verjast og hitt er að reyna komast inn í leikinn á nýjan leik. Fjórða markið var frábært, mjög vel gert hjá Curtis Jones.“

„Við höfum ekki náð þessum úrslitum áður svo við hljótum að vera gera eitthvað rétt,“ sagði Klopp um þá staðreynd að Liverpool hafi ekki unnið á Old Trafford síðan 2014.

„Við eigum erfiða leiki framundan. West Brom mæta án allra pressu sem getur gert leikina undarlega og Burnley með stuðningsfólk í stúkunni verður erfiður leikur. Svo sjáum við til hvað við þurfum að gera gegn Crystal Palace. Við verðum að vinna alla þessa leiki. Það er ástæðan fyrir því að jafntefli gegn liðum eins og Newcastle United og Leeds United voru eins og að við hefðum tapað leikjunum.“

Klopp á hliðarlínunni í kvöld.EPA-EFE/Peter Powell

„Við erum í stöðu þar sem örlögin okkar varðandi Meistaradeild Evrópu eru í okkar höndum. Fyrir tveimur eða þremur árum var það líf okkar,“ sagði Klopp að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×