Myndbandið sem um ræðir sýndi marga þjóðþekkta Íslendinga, þar á meðal tónlistarfólk, íþróttafólk, samfélagsmiðlastjörnur og aðgerðasinna, lýsa yfir stuðningi við þolendur kynferðisofbeldis. Útgangspunkturinn var sá að þeim væri trúað.
Í gær stigu svo tveir úr myndbandinu fram og viðurkenndu að hafa farið yfir mörk kvenna í fyrri samskiptum sínum við þær. Annar þeirra er bróðir Áslaugar Örnu.
Aðspurð hvort það væri eðlilegt að æðsti yfirmaður dómstóla tæki þátt í slíku myndbandi sagðist hún hafa verið að taka afstöðu með vinkonum sínum og þolendum.
„Ég tók bara afstöðu með því að styðja þær vinkonur mínar og þolendur sem hafa stigið fram í að segja sína sögu,“ sagði Áslaug í samtali við fréttamann í dag.
Í samtali við Vísi í gær sagði Edda Falak, annar þáttastjórnenda hlaðvarpsins Eigin konur sem stóð að gerð myndbandsins, að það yrði sett aftur í birtingu. Ekki lægi þó fyrir hvort og þá hvaða breytingar yrðu gerðar á myndbandinu sjálfu.
„Við erum að reyna að finna út hvað er best í stöðunni. En það breytir auðvitað ekki boðskapnum,“ sagði Edda.