Viðskipti innlent

Spá kröftugum efnahagsbata og að faraldurinn verði kveðinn í kútinn á seinni hluta árs

Eiður Þór Árnason skrifar
Horfurnar fyrir árið eru sagðar hafa batnað þar sem útlit sé fyrir að ferðaþjónustan taki fyrr við sér.
Horfurnar fyrir árið eru sagðar hafa batnað þar sem útlit sé fyrir að ferðaþjónustan taki fyrr við sér. Vísir/KMU

Hagfræðideild Landsbankans segir útlit fyrir að böndum verði komið á heimsfaraldurinn á seinni hluta þessa árs og að landsframleiðsla aukist hérlendis um 4,9% á árinu. Þá er gert ráð fyrir að verðbólga gangi hægt og sígandi niður eftir því sem líður á árið.

Hagvaxtarhorfurnar fyrir árið eru sagðar töluvert betri en í október 2020 þar sem góður gangur í bólusetningu innanlands og í helstu viðskiptalöndum auki líkur á að ferðaþjónustan taki við sér fyrr en hagfræðideildin reiknaði með í fyrra.

Reiknar hún með samfelldum hagvexti næstu tvö árin, eða 3,3% árið 2022 og 2,2% árið 2023. Áætlað er að verg landsframleiðsla nái sama stigi og fyrir faraldurinn undir lok árs 2022, samkvæmt spá hagfræðideildarinnar.

Íbúðaverð hækki um 10,5 prósent

Spáir hún því að íbúðaverð hækki um 10,5% í ár, milli ársmeðaltala, en að það hægi verulega á hækkunartaktinum næstu ár. Þá sé útlit fyrir að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 8,8% á þessu ári, lækki í 5,5% á næsta ári og verði nálægt 4,6% árið 2023.

Talið er að verðbólgan nái hámarki á öðrum ársfjórðungi 2021, verði töluvert yfir 2,5% markmiði Seðlabankans út þetta ár en verði komin í markmið um mitt næsta ár. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% í ár, 2,5% á næsta ári og 2,6% árið 2023.

Samhliða því gerir spá hagfræðideildar Landsbankans ráð fyrir að stýrivextir verði hækkaðir á seinni helmingi ársins og að meginvextir Seðlabanka Íslands verði 1,5% í árslok, hækki í 2,5% árið 2022 og verði 2,75% í lok árs 2023.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×