Körfubolti

NBA dagsins: Einum fimmtíu stiga leik frá því að jafna við Larry Bird

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jayson Tatum fagnar með Boston Celtics liðinu í nótt.
Jayson Tatum fagnar með Boston Celtics liðinu í nótt. Getty/Maddie Malhotra

Jayson Tatum fór á kostum í nótt þegar Boston Celtics tryggði sér sæti í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt.

Boston menn mæta Brooklyn Nets í fyrstu umferð úrslitakeppninni eftir 118-100 sigur á Washington Wizards í umspilsleik. Wizards fær annað tækifæri annað kvöld þegar þeir spila hreinan úrslitaleik við Indiana Pacers um síðasta sætið inn úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Indiana Pacers komst í þann leik með því að senda Charlotte Hornets í sumarfrí með 144-117 sigri þar sem Domantas Sabonis var með 14 stig, 21 frákast og 9 stoðsendingar.

Tatum skoraði 50 stig í leiknum en hann hitti meðal annars úr öllum sautján vítunum sínum og var einnig með 8 fráköst og 4 stoðsendingar.

Þetta var þriðji 50 stiga leikur Jayson Tatum með Boston Celtics og vantar hann því bara einn í viðbót til að jafna Larry Bird.

Tatum hefur nú náð að skora 50 stig fyrir félagið í deildarleik, í leik í úrslitakeppni og í umspilsleik.

Það voru tveir leikmenn Boston Celtics liðsins sem fóru fyrir sóknarleik liðsins því Kemba Walker skoraði 29 stig og saman voru þeir því með 79 stig.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Celtics liðinu á tímabilinu en liðið tapaði tíu af síðustu fimmtán leikjum í deildarkeppninni og þurfti fyrir vikið að spila svona leik um að komast hreinlega í úrslitakeppnina.

„Við höfum farið í gegnum margt saman og það hefur að mörgu leyti hert okkur. Við höfum verið með bakið upp við vegg stærsta hluta tímabilsins og það tekur mikla samheldni að standa saman á erfiðum tímum,“ sagði Brad Stevens, þjálfari Boston Celtics.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá leikjum næturinnar sem og fimm flottustu tilþrif leikjanna tveggja.

Klippa: NBA dagsins (frá 18. maí 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×