Hann sagði að fólk væri ekki lengur að reyna að komast til Ceuta, hins vegar hafi hundruð reynt að komast til Melilla, annars yfirráðasvæðis Spánar í Norður-Afríku. Minnst þrjátíu eru sagðir hafa komist þar yfir landamærin.
Spánn og Marokkó eiga í deilum þessa dagana og hafa Spánverjar leitt líkur að því að landamærum í Marokkó hafi verið skipað að hleypa fólki að landamærum Ceuta til að refsa Spánverjum fyrir að taka á móti Brahim Ghali. Sá leiðir sjálfstæðishreyfingu í vesturhluta Marokkó en hefur verið á sjúkrahúsi á Spáni frá því í síðasta mánuði.
Sjá einnig: Hermenn sendir til að hefta flæði fólks yfir landamærin í Ceuta
EL País segir forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa sent yfirvöld í Marokkó skilaboð um að slakt landamæraeftirlit þar gæti leitt til samdráttar í fjárhagsaðstoð sambandsins. Ráðamenn í Marokkó hafi nýverið heitið því að draga úr flæði flótta- og farandfólks.
AP fréttaveitan segir flesta sem hafa reynt að komast til Ceuta vera unga menn frá Marokkó. Blaðamenn fréttaveitunnar ræddu við nokkra þeirra sem segjast lepja dauðan úr skel í Marokkó. Enga vinnu væri að fá og margir þeirra sem hafi reynt að komast til Ceuta búi á götunni.
Einn viðmælandi lýsti því að vera fastur í Marokkó við það að vera dauður. Þeir hefðu engu að tapa við að reyna að komast til Evrópu.
„Við munum halda áfram að reyna. Við munum finna leið, jafnvel þó hafið frjósi,“ sagði annar.