Innlent

Telur hraunið geta náð Suður­strandar­vegi á einni til tveimur vikum

Birgir Olgeirsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur telur hraunið geta náð Suðurstrandarvegi á einni til tveimur vikum. Hann segir skynsamlegt að ráðist verði í varnir í Nátthaga til að þrengja för hraunsins í átt að veginum og út í sjó svo sem minnst tjón verði.

Þorvaldur segir erfitt að segja til um nákvæmlega hvenær hraun renni að Suðurstrandarvegi. Það fari eftir því hvort að flutningsrásir lokist

„Það er erfitt að segja til á þessu stigi. Það fer alveg eftir því hvernig hraunið hagar sér í Nátthaga. Ef það fer að breiða úr sér í Nátthaga þá getur það tekið töluverðan tíma, kannski þrjár til fimm vikur. En ef það nær að mynda svona ákveðna rás í gegnum Nátthagann þá er tíminn miklu styttri. Þá gætum við verið að tala um eina til tvær vikur,“ sagði Þorvaldur í samtali við fréttastofu.

Ekki mikill tími til stefnu

Hann segir að það væri skynsamlegt að reyna að stýra hraunflæðinu þannig að það rati beint út í sjó. Það væri hægt með góðum varnargörðum og réttri staðsetningu.

„Ef hraunið heldur áfram í gegnum Nátthagann þá væri skynsamlegt af okkur að reyna að beina flæðinu í sem þrengstan farveg og þannig að það fari beint út í sjó.“

Slíkt væri skynsamlegt svo að sem minnst tjón verði. Hann segir að þá þurfi að hugsa til verks sem fyrst.

Hvað höfum við langan tíma til að hanna slíkar varnir?

„Við höfum ekki mikinn tíma í það.“

Hraun sést frá Suðurstrandarvegi

Hraunið sést nú frá Suðurstrandarvegi líkt og sést á þessari mynd.

Ekkert lát virðist á gosinu. Þorvaldur segir að breytingar hafi átt sér stað á undanfarinni viku.

„Það eru fleiri flutningsrásir hraunsins að lokast og einangrast þannig það er að draga úr hitatapinu. Það þýðir einfaldlega að hraunið hefur meiri möguleika á að verða lengra því það kólnar ekki við flutninginn.“

Þorvaldur segir að þegar hraun hafi komið niður í Nátthaga hafi verið um apalhraun að ræða en apalhraun er seigt hraun sem fer hægar yfir.

„Meðan það helst þá held ég að það taki töluverðan tíma fyrir það að komast í gegnum Nátthagann en ef flutningsrásin, niður brekkuna og út gilið niður í Nátthaga, ef sú flutningsrás lokast þá verður flæðið út úr Nátthaga og ferðin niður að Suðurstrandarvegi mikið hraðari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×