Lífið

Neikvæð niðurstaða úr fíkniefnaprófi söngvarans

Sylvía Hall skrifar
Damiano David söng framlag Ítalíu í ár, Zitti E Buoni, sem vann keppnina.
Damiano David söng framlag Ítalíu í ár, Zitti E Buoni, sem vann keppnina. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Niðurstöður fíkniefnaprófs söngvarans Damiano David leiddu í ljós að hann hefði ekki neytt fíkniefna á úrslitakvöldi Eurovision söngvakeppninnar. David er söngvari hljómsveitarinnar Måneskin sem fór með sigur af hólmi í keppninni í ár fyrir hönd Ítalíu. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Söngvakeppni evrópskra sjónarpsstöðva nú síðdegis. Samkvæmt tilkynningunni er litið svo á að málinu sé lokið og staðfest að engin fíkniefnaneysla hafi átt sér stað í Græna herberginu umrætt kvöld.

Farið var yfir myndbandsupptökur af svæði keppenda og málið rannsakað frá öllum hliðum. 

„Okkur þykir miður að rangar vangaveltur, sem leiddu til falsfrétta, hafi varpað skugga á andann og niðurstöður keppninnar og haft neikvæð áhrif á hljómsveitina,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum keppninnar. 

Sjálfur hefur David, sem er 22 ára gamall, sagst vera móðgaður vegna ásakana um neyslu kókaíns en eftir keppnina sagðist hann hafa verið að líta niður á glas sem hljómsveitarfélagi hans hafði brotið. Hann samþykkti strax að undirgangast fíkniefnapróf.

„Mér finnst þetta eiginlega fáránlegt. Við erum ungir með mikla ástríðu fyrir tónlist og þetta er í alvöru að skyggja á sigurinn okkar,“ sagði David um sögusagnirnar. 

Hér að neðan má sjá myndband af atvikinu sem fór á flug á samfélagsmiðlum eftir keppnina og var kveikjan að sögusögnum um kókaínneyslu söngvarans. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×