Hin þrjú sem ákærð eru fyrir manndráp í samráði neituðu öll sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Þingfestingin var með óhefðbundnu formi og gekk ekki áfallalaust fyrir sig. Þannig tók nokkurn tíma að ná sambandi við fangelsið á Hólmsheiði þar sem Angjelin og Shpetim Qerimi eru í gæsluvarðhaldi.
Þrjú nei og eitt afdráttarlaust já
Sverrir Halldórsson, verjandi Claudiu Sofiu Coelho Carvalho, mætti með umboð fyrir hennar hönd. Claudia, sem er unnusta Angjelin, neitar sök en hennar þáttur er sagður hafa verið sá að fylgjast með bílum í eigu Armando við hús á Rauðarárstíg og láta vita þegar þeir yrðu hreyfðir.
Murat mætti jakkafataklæddur í dómsal ásamt Geir Gestssyni lögmanni sínum. Murat neitaði sök í málinu þegar sakarefnið var borið undir hann. Hans þáttur á að hafa verið sá að benda Claudiu á bílana sem hún átti að fylgjast með.
Í framhaldinu náðist loks fjarfundarsamband við gæsluvarðhaldsfangelsið á Hólmsheiði. Fyrst mætti Shpetim Qerimi og sagðist neita sök í málinu. Honum er gefið að sök að hafa ekið bíl með Angjelin innanborðs þar sem þeir veittu Armando eftirför heim til hans. Sömuleiðis að hafa ekið á brott með Angjelin alla leið í Varmahlíð í Skagafirði eftir morðið.
Þá var komið að Angjelin. Lögregla sagði á blaðamannafundi í apríl að Angjelin hefði játað á sig verknaðinn og hann stóð við þá yfirlýsingu þegar sakarefnið var borið undir hann. Hann er sakaður um að hafa banað Armando með níu byssuskotum fyrir utan heimili hans í Rauðagerði.
Angjelin var afdráttarlaus. Hann játaði á sig sakarefnið og lagði áherslu á að hann einn væri sekur um verknaðinn.
Í framhaldinu lagði Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari til að aðalmeðferð í málinu færi fram í haust. Ljóst væri að ekki tækist að rétta í málinu fyrr en þá. Varð mánudagurinn 13. september fyrir valinu og sækjendur og verjendur beðnir um að taka vikuna frá. Það er því ljóst að dómari gerir ráð fyrir að aðalmeðferðin standi í það minnsta eina viku.
Blaðamaður sat þingfestingu málsins í héraði í dag og greindi jafnóðum frá því sem fram fór í vaktinni að neðan.