Um 650 farþegar munu ganga um borð á laugardag áður en skipið, MSC Orchestra, leggur af stað í siglingu um Miðjarðarhafið. Allir farþeganna þurfa að sýna fram á að þeir séu ekki smitaðir af Covid-19 áður en þeir ganga um borð.
Umhverfisaðgerðasinnar hafa skipulagt mótmæli vegna komu skipsins. Þeir telja hættu á að skipin risavöxnu eyði upp grunni borgarinnar sögulegu. Þá hafa andstæðingar þeirra skipulagt andstöðumótmæli og segjast fagna komu ferðamanna.
Lengi hafa verið uppi áhyggjur um neikvæð áhrif skemmtiferðaskipa á umhverfi Feneyja. Margir telja að skipin stuðli að hækkun sjávarmáls í borginni, eða öllu heldur að borgin lækki. Ýmsir heimsþekktir einstaklingar, þar á meðal Mick Jagger og Francis Ford Coppola, hafa skrifað undir undirskriftalista þar sem kallað er eftir því að öllum stórum skipum verði bannað að leggja að bryggju í Feneyjum.
Alls eru sautján mánuðir frá því að síðasta skemmtiferðaskip kom til Feneyja. Þá eru rétt tæp tvö ár liðin frá því að skemmtiferðaskipið MSC Opera sigldi á eina af bryggjum Feneyja.