Innlent

Gos­ó­róinn minnkar: „Byrjunin á endinum?“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Óróinn í gosstöðvunum við Fagradalsfjall minnkaði nokkuð í kvöld. 
Óróinn í gosstöðvunum við Fagradalsfjall minnkaði nokkuð í kvöld.  Vísir/Vilhelm

Einhverjir hafa velt því fyrir sér í kvöld hvort eldgosinu við Fagradalsfjall sé lokið. Óróinn við gosstöðvarnar féll töluvert á níunda tímanum í kvöld og hefur verið á nokkurri niðurleið en hefur fundist að nýju þegar liðið hefur á kvöldið.

Uppfært klukkan 23:35: Skyggnið við gosstöðvarnar hefur ekkert skánað en náttúruvársérfræðingur segir að greina megi smáa púsla við Fagradalsfjall. Þeir komi og fari en ekki sé hægt að segja af eða á með eitt né neitt.

Netverjar hafa velt fyrir sér virkninni í eldgosinu í kvöld og birtist til dæmis færsla á Facebook-síðunni Jarðfræði á Íslandi í kvöld þar sem því var velt upp hvort eldgosinu sé lokið.

Þá birti Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, færslu fyrir stuttu þar sem hann spyr hvort þetta sé byrjun á endinum.

Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir ekkert hægt að segja til um hvort gosinu sé lokið, lítið skyggni sé við fjallið og ekkert sjáist á vefmyndavélum á svæðinu.

„Það er svo mikil þoka þarna að við sjáum ekkert á vefmyndavélum. Það er alveg rétt að óróinn féll þarna niður um hálf níu en svo kom hann inn klukkutíma seinna á einni stöðinni og var í smá tíma aftur niðri,“ segir Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni.

„Ég myndi ekki slátra neinu gosi að svo komnu máli. Það er ekki hægt að sjá neitt á vefmyndavélum og ekkert hægt að segja til um þetta,“ segir Sigþrúður.

Í spilaranum hér að neðan má fylgjast með streymi úr vefmyndavél Vísis á Fagradalsfjalli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×