Sport

Á­tján ára spút­nik­stjarna Wimbledon mótsins varð að hætta keppni vegna öndunar­erfið­leika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin unga Emma Raducanu lenti í erfiðleikum í miðjum leik og varð að hætta keppni.
Hin unga Emma Raducanu lenti í erfiðleikum í miðjum leik og varð að hætta keppni. Getty/Julian Finney/

Wimbledon ævintýri Emmu Raducanu endaði í gær á leiðinlegan hátt þegar hún varð að hætta keppni í leik sínum á móti Ajlu Tomljanovic í fjórðu umferð risamótsins í tennis.

Raducanu gat ekki haldið áfram vegna þess að hún átti erfitt með að anda en það kom fram í opinberri tilkynningu forráðamanna mótsins.

Það fór ekki framhjá neinum í öðru setti leiksins að Raducanu leið ekki vel. Hún greip margoft um kviðinn og virtist glíma við umrædda öndunarerfiðleika.

Raducanu var bara í 338. sæti heimslistans fyrir mótið en hafði slegið út tvo mótherja á topp fimmtíu á leið sinni í keppninni. Það eru margir tennisáhugamenn spenntir fyrir framtíðinni hjá þessari ungu tenniskonu og því var þessi endir í gær mikil vonbrigði.

Ástralinn Ajla Tomljanovic er því komin áfram í átta manna úrslit þar sem hún mætir Ashleigh Barty.

Tomljanovic vann fyrsta settið 6-4 og var 3-0 yfir í öðru settinu þegar Emma Raducanu þurfti að yfirgefa völlinn. Seinna var tilkynnt að hún myndi ekki snúa aftur í leikinn og Tomljanovic var þar með komin áfram.

„Ég finn til með henni og vildi óska að við hefðum getað klárað leikinn. Ég óska henni alls hins besta,“ sagði Ajla Tomljanovic eftir leik.

Hin átján ára gamla Raducanu varð yngsta breska tenniskonan til að komast svo langt á Wimbledon risamótinu í nútíma tennis. Hún var eina heimakonan sem var eftir í keppninni.

Í hinum leikjum átta manna úrslitinna í einliðaleik kvenna á Wimbledon mótinu mætast Karolína Muchová og Angelique Kerber, Karolína Plíšková og Viktorija Golubic og svo að síðast en ekki síst Ons Jabeur og Aryna Sabalenka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×