Þessi samdráttur í virkni mun hafa komið í ljós samhliða aukinni dreifingu Delta-afbrigðisins og niðurfellingar ýmissa samkomutakmarkana og sóttvarna.
Reuters fréttaveitan vísar í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneyti Ísraels þar sem segir að bóluefnið komi í veg fyrir að bólusettir smitist og einkenni í um 64 prósent tilfella. Þó komi bóluefnið í veg fyrir að 93 prósent smitaðra veikist alvarlega.
Tekið er fram að virkni bóluefnisins í að koma í veg fyrir að fólk smitist hafi dregist saman en ekkert segir um hvert hlutfallið var áður. Varðandi vörn gegn alvarlegum veikindum sagði ráðuneytið í skýrslu í maí að virkni bóluefnisins væri 95 prósent.
Talsmaður Pfizer neitaði að tjá sig um gögn Ísraela og vísaði þess í stað í rannsóknir sem sýna að mótefni sem myndast vegna bóluefnisins geti komið í veg fyrir að fólk smitist af öllum þekktum afbrigðum Covid-19, þó virknin geti verið minni milli afbrigða.
Eins og fram kemur í umfjöllun fréttaveitunnar segir að um 60 prósent 9,3 milljóna íbúa Ísraels hafi fengið minnst einn skammt af bóluefnis Pfizer. Samhliða bólusetningu hafi daglegum tilfellum fækkað úr rúmlega tíu þúsund á dag í janúar, niður í færri en tíu á dag í síðasta mánuði.
Aukin útbreiðsla Delta-afbrigðisins í Ísrael hefur þó leitt til fjölgunar smitaðra á nýjan leik.
Í frétt Times of Israel segir að samhliða því að tilfellum fari fjölgandi, fækki þeim sem veikist alvarlega. Í gær greindist 501 smitaður af Covid-19 og þar af um helmingurinn skólabörn. 73 eru á sjúkrahúsi og þar af 33 í alvarlegu ástandi.