Menning

Harm­leikja­kóngur Bollywood er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Dilip Kumar birtist síðast í kvikmynd árið 1998 og hélt þá innreið sína í heim stjórnmála. Hann vann þá að friðarviðræðum milli Indverja og Pakistana.
Dilip Kumar birtist síðast í kvikmynd árið 1998 og hélt þá innreið sína í heim stjórnmála. Hann vann þá að friðarviðræðum milli Indverja og Pakistana. AP

Indverski leikarinn Dilip Kumar, sem hefur verið kallaður Harmleikjakóngur Bollywood, er látinn. Hann lést í morgun, 98 ára að aldri.

Kumar var sannkölluð goðsögn í heimi Bollywood, indverska kvikmyndaheimsins, og lék hann í rúmlega sextíu myndum á um hálfrar aldar leiklistarferli. Hann er þekktur fyrir stórmyndir á borð við Devdas frá árinu 1955 og Mughal-e-Azam frá árinu 1960.

Kumar var helsta stórstjarna gullaldar Bollywood á fimmta, sjötta og sjöunda áratugnum.

Erlendir fjölmiðlar hafa sagt frá því að Kumar hafi verið heilsuveill um nokkurt skeið og mikið dvalið á sjúkrahúsi síðasta mánuðinn.

Dilip Kumar hét Mohammed Yusuf Khan og fæddist í Peshawar, sem nú er í Pakistan, árið 1922. Hann tók upp listamannsnafnið Dilip Kumar þegar hann hóf leiklistarferilinn á fimmta áratugnum.

Fjölmargir hafa minnst Kumar eftir að greint var frá andlátinu, þeirra á meðal Narendra Modi forsætisráðherra sem kallar hann „goðsögn í heimi kvikmynda“.

Litlu munaði að hann yrði heimsþekktur árið 1962 þegar honum var boðið hlutverk Sherif Ali í stórmyndinni Arabíu-Lawrence. Hann hafnaði hins vegar hlutverkinu og féll það í hlut Egyptans Omar Sharif til að túlka persónuna Ali.

Dilip Kumar birtist síðast í kvikmynd árið 1998 og hélt þá innreið sína í heim stjórnmála. Hann vann þá að friðarviðræðum milli Indverja og Pakistana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×