Innlent

Segja lög­reglu hafa beitt raf­byssu og eytt mynd­böndum sjónar­votta

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sema Erla segist hafa rætt við sjónarvotta á vettvangi í gær. Einn þeirra segist hafa tekið myndband af aðgerðunum en lögreglumaður hafi tekið af honum símann og eytt myndbandinu.
Sema Erla segist hafa rætt við sjónarvotta á vettvangi í gær. Einn þeirra segist hafa tekið myndband af aðgerðunum en lögreglumaður hafi tekið af honum símann og eytt myndbandinu. vísir

Tveir palestínskir flótta­menn voru hand­teknir í mót­töku Út­lendinga­stofnunar í gær eftir að þeir höfðu verið boðaðir þangað til að sækja bólu­setningar­vott­orð sín. Þeir voru fluttir af staðnum með valdi og sendir úr landi í morgun. Sjónar­vottur sakar lög­reglu um að hafa tekið af sér símann og eytt mynd­bandi sem var tekið upp.

Út­lendinga­stofnun tekur fyrir að að­gerðin hafi verið á þeirra vegum og vísar öllu á aðal­lög­fræðing lög­reglunnar.

Sema Erla Serdar, for­maður hjálpar­sam­takanna Solaris fyrir hælis­leit­endur og flótta­fólk á Ís­landi, mætti á staðinn í gær eftir að mennirnir höfðu verið hand­teknir. Þar ræddi hún við sjónar­votta um það sem þar hafði farið fram.

Lokkaðir á staðinn í skipulegri aðgerð

„Sam­kvæmt vitnum og þeim sem að þarna mættu þá voru þeir boðaðir á skrif­stofu Út­lendinga­stofnunar í Bæjar­hrauni í Hafnar­firði til að nálgast bólu­setningar­skír­teinin sín. En þegar þeir síðan mæta á staðinn þá verður þeim ljóst frekar fljótt að það er nú ekki alveg allt með feldu og gera til­raun til að yfir­gefa bygginguna,“ segir Sema.

„Þá er þeim í raun meinað að yfir­gefa staðinn af starfs­mönnum Út­lendinga­stofnunar. Og stuttu seinna er lög­regla mætt á staðinn.“

Hún segist hafa talið alla­vega fjóra merkta lög­reglu­bíla, sjúkra­bíl og slökkvi­liðs­bíl og þá var sér­sveitin mætt á ó­merktum bílum.

„Þannig að aug­ljós­lega er þetta mjög skipu­lögð að­gerð af hálfu Út­lendinga­stofnunar. Í rauninni að lokka drengina á staðinn, plata þá til að mæta einungis til að til­kynna þeim að þar sem þeir eru núna bólu­settir þá væri hægt að brott­vísa þeim til Grikk­lands og þeir eigi að fara með lög­reglunni án tafar,“ segir Sema.

Mennirnir hafi bólu­sett sig í góðri trú og gert það til að vernda sig og aðra fyrir Co­vid-19. Þeir hafi ekki vitað að það ætti að vísa þeim úr landi um leið og þeir hefðu verið bólu­settir og segjast ekki hafa fengið neinar fréttir af brott­vísuninni fyrr en þeir mættu á staðinn.

Lög­reglan hafi eytt upp­tökum

Erla segir að mennirnir hafi skiljan­lega verið ó­sáttir með málið en þegar þeir sýndu lög­reglu mót­spyrnu var ráðist á þá af hópi lög­reglu­manna, eins og sést af myndum sem teknar voru á svæðinu í gær.

Lög­regla hafi meðal annars stuðað þá með raf­byssu til að yfir­buga þá. Þeir voru sendir úr landi til Grikk­lands í morgun, með við­komu í Sví­þjóð.

Sema segir að að­gerðir lög­reglu í gær verði kærðar til nefndar um eftir­lit með lög­reglu (NEL) því vinnu­brögð lög­reglu­manna á svæðinu hafi verið með öllu ó­boð­leg:

„Einn aðili tók myndir og mynd­bönd í gegn um hurðina af því sem þarna var að eiga sér stað. Sá aðili hefur sagt að lög­regla hafi tekið af honum símann og eytt þeim gögnum sem hann tók upp. Og virðist þannig hafa verið að eyða sönnunar­gögnum um sitt fram­ferði þarna inni.

Það er náttúru­lega eitt­hvað sem er ekki vitað til að lög­regla hafi heimild til að gera. Og hefði senni­lega ekki gert ef þarna hefðu verið aðrir en flótta­menn,“ segir Sema.

Útlendingastofnun neitar að tjá sig

Þá segir hún einnig að leitað verði til við­eig­andi aðila til að til­kynna fram­ferði Út­lendinga­stofnunar í málinu. Verið sé að skoða í hvaða far­veg sé best að fara með það mál.

Þór­hildur Ósk Haga­lín, upp­lýsinga­full­trúi Út­lendinga­stofnunar, neitaði að koma í við­tal um málið þegar frétta­stofa óskaði eftir því.

Spurð hvort mennirnir hafi verið boðaðir af Út­lendinga­stofnun til að sækja bólu­setningar­vott­orð sitt neitar hún því. Hún bendir á að lög­reglan sé einnig stað­sett í hús­næðinu sem um ræðir og segir að að­gerðin hafi verið al­farið á vegum lög­reglunnar.

Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar.

Þegar hún er spurð hvort hún geti þá full­yrt að enginn starfs­maður stofnunarinnar hafi tekið þátt í undir­búningi að­gerðarinnar eða at­vikinu sjálfu segir hún að stofnunin ætli ekki að tjá sig um málið.

Hvorki náðist í Helga Val­berg, aðal­lög­fræðing lög­reglunnar, sem Þór­hildur vísaði á né Guð­brand Guð­brands­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjón hjá stoð­deild sem sér um að fram­kvæma brott­vísanir, við gerð fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Palestínumanni vísað á götuna eða til Grikklands

Palestínumaður, sem hefur verið synjað um hæli hér á landi, segist vilja búa á Íslandi með fjölskyldu sinni sem er enn á Gaza. Til stendur að senda hann aftur til Grikklands þar sem lögmaður segir aðstæður vera óboðlegar og mun verri en áður en faraldurinn skall á.

Út­­lendinga­­stofnun getur ekki hætt að senda til Grikk­lands

Út­lendinga­stofnun telur sig al­gjör­lega bundna af gildandi lögum sem hún fylgir í máli Palestínu­mannanna fjór­tán sem voru sviptir allri þjónustu stofnunarinnar, hús­næði og fæði. Hún geti ekki tekið mál ein­stak­linganna til efnis­legrar með­ferðar því þeir hafi hlotið vernd í Grikk­landi og staða faraldursins þar sé ekki nægileg ástæða til.

Út­­lendinga­­stofnun geti vel hætt að senda fólk til Grikk­lands

Rauði krossinn furðar sig á málflutningi Út­lendinga­stofnunar og túlkun hennar á reglu­verki í kring um hælis­um­sóknir á Ís­landi. Lög­fræðingur hjálpar­sam­takanna og tals­maður um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd segir það ekki rétt sem kom fram í máli Út­lendinga­stofnunar í við­tali Vísis sem birtist í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×