„Hér er um einhvern misskilning að ræða. Við erum bara að sviðsetja hérna hlut, eins og við gerum í kvikmyndageiranum. Þá eru alls konar viðburðir sviðsettir og það er það sem er að eiga sér stað hérna við Hjörleifshöfða í dag,“ segir Guðmundur Guðjónsson, tökustjóri hjá True North, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að tökur fyrir bresku þættina Top Gear fari fram við Hjörleifshöfða í dag. Kvartmíluklúbburinn hafði auglýst á Facebook eftir þátttakendum í sandspyrnu fyrir þættina og sagði Guðmundur í samtali við mbl.is að það hafi verið nokkuð óheppilegt. Ekki sé um eiginlega keppni að ræða.
„Nei, nei, alls ekki. Og við erum í góðri samvinnu við landeigendur og erum að vinna þetta í nánu samstarfi við þá um hvernig öllu er til háttað hérna, þetta eru hlutir sem við höfum oft gert áður, bæði við Hjörleifshöfða og á fleiri stöðum víða um landið þar sem eðlilega fylgir okkar starfsemi eitthvert rask en við göngum auðvitað frá í samræmi við samkomulag okkar við landeiganda,“ segir Guðmundur í Reykjavík síðdegis.
Hann segir að True North hafi verið í samtali við Umhverfisstofnun um verkefnið.
„Þegar við erum að vinna í friðlandi eða þjóðgarði þá vinnum við það að sjálfsögðu með viðeigandi aðilum. Hérna erum við bara að vinna í samstarfi við landeiganda og erum með leyfi frá honum og leigjum landið af honum í þessum tilgangi og komum til með að skila landinu í sama ástandi og þegar við tókum við því,“ segir Guðmundur.
„Við höfum alltaf verið og erum í góðu samstarfi við umhverfisstofnun alls staðar þar sem við erum að vinna og við höfum átt í samtölum við þau í tengslum við þetta verkefni og erum með leyfi fyrir kvikmyndatöku þar sem er þörf á leyfi frá þeim.“