Fótbolti

Unnu sinn fyrsta leik síðan í júní

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ingibjörg og stöllur hennar þurfa góða seinni umferð til að verja titilinn.
Ingibjörg og stöllur hennar þurfa góða seinni umferð til að verja titilinn.

Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir spilaði allan leikinn fyrir Vålerenga sem komst aftur á sigurbraut með 3-0 sigri á Kolbton í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. 10. umferð deildarinnar hófst í dag og þar með seinni helmingur tíu liða deildarinnar í Noregi.

Eftir sigur í fyrstu sex leikjum tímabilsins mistókst Vålerenga að vinna síðustu þrjá leiki sína, sem allir voru gegn liðunum sem eru ásamt þeim í toppbaráttunni. Vålerenga er ríkjandi meistari eftir að Ingibjörg og stöllur hennar unnu fyrsta Noregstitilinn í sögu liðsins í fyrra.

Töp gegn toppliðunum Rosenborg og Sandviken og jafntefli við Lilleström þýddu hins vegar að liðið þurfti að komast aftur á sigurbraut í dag. Hlé hefur verið á deildinni vegna Ólympíuleikanna en Vålerenga vann síðast leik gegn Stabæk 30. júní síðastliðinn.

Kolbotn var mótherji dagsins en liðið var fyrir leikinn í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig, tíu stigum á eftir Vålerenga sem var í þriðja sæti. Erfiðlega gekk framan af fyrir heimakonur að brjóta ísinn en Katie Stengel kom Vålerenga 1-0 yfir á 40. Mínútu og annað mark frá Janni Thomsen fylgdi þremur mínútum síðar. Synne Jansen innsiglaði svo 3-0 sigur liðsins snemma í síðari hálfleik.

Vålerenga er þá með 22 stig í 3. sætinu, jafnt Lilleström að stigum sem vann 4-3 útisigur á Arna-Björnar. Sandviken er í efsta sæti með 29 stig eftir dramatískan 2-1 sigur á Lyn. Rosenborg vann 5-2 útisigur á Stabæk og er með 28 stig í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×