Erlent

Lýsir loftlagsskýrslu sem rauðri viðvörun fyrir mannkynið

Kjartan Kjartansson skrifar
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Vísir/EPA

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að ný skýrslu loftslagsnefndar þeirra sé „rauð viðvörun“ fyrir mannkynið. Í skýrslunni kemur fram að metnaðarfyllra markmið Parísarsamkomulagsins gæti verið fyrir bí snemma á næsta áratug.

„Hringingar viðvörunarbjallnanna eru ærandi og sönnunargögnin eru óhrekjanleg: gróðurhúsalofttegundir frá brennslu jarðefnaeldsneytis og eyðing skóga eru að kæfa plánetuna okkar og setja líf milljarða manna í hættu,” segir António Guterres, aðalframkvæmdastjóri SÞ, í yfirlýsingu eftir að sjötta úttektarskýrsla loftslagsnefndarinnar (IPCC) birtist í morgun.

Nú er reiknað með að hnattræn hlýnun fari umfram 1,5°C strax snemma á fjórða áratug þessarar aldar. Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnun innan við 1,5-2°C á þessari öld. Varað er við því að veðuröfgar verði tíðari og alvarlegri samhliða aukinni hlýnun.

Nær beint samband er á milli aukins styrks gróðurhúsalofttegunda vegna losunar manna á koltvísýringi og hlýnunar jarðar. Því segir Guterres að skýrslan eigi að vera „rothögg fyrir kola- og jarðefnaeldsneyti áður en þau ganga af plánetunni dauðri“.

Ríkjum beri að hætta allri nýrri olíuleit og vinnslu og frá og með 2030 þurfi að ferfalda sólar- og vindorkuvinnslu og þrefalda fjárfestingar í endurnýjanlegri orku.

„Þetta er nauðsynlegt til þess að ná því marki að nettólosun gróðurhúsalofttegunda verði engin um miðja öldina,“ segir Guterres.

Í skýrslunni kemur fram að ef dregið verður hratt úr losun gæti hnattræn hlýnun náð hámarki þegar hún er komin nokkuð yfir 1,5°C og síðan lækkað niður fyrir það mark fyrir lok aldarinnar.

„Ef við leggjumst öll á eitt núna getum við afstýrt loftslagshamförum. En eins og skýrslan sem kom út í dag sýnir fram á megum við engan tíma missa og það er ekkert rými fyrir afsakanir. Ég treysti því að leiðtogar ríkja og aðrir sem hlut eiga að máli tryggi að COP26-loftslagsráðstefnan verði árangursrík,“ segir Guterres og vísar til ráðstefnunnar sem haldin verður í Glasgow í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×