Fótbolti

Segir að Messi verði til­kynntur síðar í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi verður tilkynntur sem leikmaður París-Saint Germain síðar í dag.
Lionel Messi verður tilkynntur sem leikmaður París-Saint Germain síðar í dag. Gabriel Aponte/Getty Images

Samkvæmt öllu ætti Lionel Messi að verða leikmaður París-Saint Germain í dag. 

Hinn áreiðanlegi Fabrizio Romano staðfesti tíðindin í dag. Í nótt bárust fregnir þess efnis að Barcelona hefði gert lokatilraun til að halda Messi í sínum röðum en um falsfréttir var að ræða samkvæmt The Athletic.

Nú árla morguns var svo staðfest að Messi hafi náð samkomulagi við París og ætti hann að vera tilkynntur sem leikmaður liðsins síðar í dag. Messi mun skrifa undir tveggja ára samning með möguleika á ári til viðbótar. 

Hann fær 25 milljónir evra við að skrifa undir og sömu upphæð fyrir hvert ár sem hann spilar. Alls gæti því samningur til þriggja ára skilað Argentínumanninum tæpum 100 milljónum evra.

Hinn 34 ára gamli Messi hefur allan sinn feril leikið með Barcelona en vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins gat það ekki haldið honum sökum þess hversu himinháum launum hann var á. 

Messi hefur því ákveðið að söðla um og færa sig um set til Parísar þar sem hann fær ágætlega borgað fyrir vinnu sína og á möguleika á að vinna alla þá titla sem eru í boði.


Tengdar fréttir

Hefði ekki mátt spila launa­laust með Barcelona

Lionel Messi hefur yfirgefið spænska stórveldið Barcelona og mun að öllum líkindum semja við franska knattspyrnufélagið París-Saint Germain síðar í dag. Vegna regluverks La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, gátu Börsungar ekki samið við Argentínumanninn á nýjan leik þar sem hann hefði ekki mátt spila launalaust með félaginu.

„Barça verður aldrei samt án þín“

Spánverjinn Cesc Fabregas, sem leikur með Mónakó í Frakklandi, sendi Lionel Messi hjartnæma kveðju á samfélagsmiðlinum Twitter. Fabregas er jafnaldri Messi og æfði með honum sem unglingur áður en þeir spiluðu saman fyrir aðallið Barcelona síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×