Fótbolti

Gerd Muller er látinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gerd Muller í leik með FC Bayern gegn Rot Weiss Essen tímabilið 1976-77.
Gerd Muller í leik með FC Bayern gegn Rot Weiss Essen tímabilið 1976-77. Vísir/Getty

Einn mesti markaskorari allra tíma, hinn þýski Gerd Muller, er látinn 75 ára að aldri en frá þessu var greint á Twitter síðu FC Bayern nú fyrir skömmu.

Muller er eins og áður segir þekktur sem einn mesti markaskorari allra tíma en hann lék langstærstan hluta ferils síns með FC Bayern þar sem hann skoraði 365 mörk í 427 leikjum í þýsku Bundesligunni. Á ferlinum lék hann einnig með 1861 Nördlingen og Fort Lauderdale strikers í Bandaríkjunum.

Hann lék 62 landsleiki með Vestur Þýskalandi og skoraði í þeim 68 mörk, þar á meðal sigurmarkið í úrslitaleik Heimsmeistarakeppninnar árið 1974 þar sem Vestur Þjóðverjar mættu Hollendingum.

Muller er þriðji markahæsti leikmaður í sögu lokakeppni Heimsmeistaramótsins en hann skoraði alls 14 mörk í tveimur keppnum 1970 og 1974. Aðeins hinn brasilíski Ronaldo og Miroslav Klose hafa skorað fleiri.

Auk þess að verða heimsmeistari með Vestur Þýskalandi árið 1974 vann hann þýsku deildina fjórum sinnum með FC Bayern og Evrópukeppni meistaraliða þrisvar.

Eftir að ferlinum lauk lenti Muller í óreglu um tíma en gamlir liðsfélagar hans í Bayern hjálpuðu honum aftur á rétta braut. Hann starfaði fyrir Bayern sem þjálfari varaliðsins og var algjör goðsögn innan félagsins. Síðustu ár hefur Muller glímt við Alzheimers sjúkdóminn en hann greindist með hann árið 2015.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Muller var heiðraður af Bayern þegar leikinn var æfingaleikur milli FC Bayern og hollenska landsliðsins árið 2011. Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×