Erlent

Úr­helli og yfir­vofandi aur­skriður gera björgunar­liði erfitt fyrir

Atli Ísleifsson skrifar
Búist er við að 25 sentimetra úrkoma muni falla á þeim svæðum sem verst verða úti. Sömuleiðis er óttast að úrhellið komi til með að leiða til aurskriða.
Búist er við að 25 sentimetra úrkoma muni falla á þeim svæðum sem verst verða úti. Sömuleiðis er óttast að úrhellið komi til með að leiða til aurskriða. Getty

Talsmenn haítískra yfirvalda segja tölu látinna vegna skjálftans mikla sem reið yfir á laugardag nú vera komna í 1.419 og þá er vitað um 6.900 manns sem hafi slasast. Ekki er vitað um nákvæman fjölda þeirra sem enn er saknað.

Björgunarlið vinnur nú hörðum höndum að því að leita að fólki sem kann að vera grafið í rústum húsa eftir skjálftann og hefur hitabeltisstormurinn Grace sem nú hefur gengið á land gert mönnum erfitt fyrir.

Búist er við að 25 sentimetra úrkoma muni falla á þeim svæðum sem verst verða úti. Sömuleiðis er óttast að úrhellið komi til með að leiða til mikilla aurskriða.

Á myndskeiðum má sjá mikið úrhelli sem herjað hefur á íbúa á austurhluta eyjunnar Hispanjólu , þar sem Haítí er að finna, og er búist við að leið Grace muni svo liggja yfir skjálftasvæðin á vesturhlutanum.

Erfitt gæti reynst að koma birgðum og hjálpargögnum til sumra svæðanna þar sem vegir hafa margir rofnað.

Skjálftinn á laugardaginn mældist 7,2 að stærð og fylgdu fjölmargir eftirskjálftar í kjölfarið. Jarðskjálftinn átti upptök sín um 125 kílómetra vestur af Port-au Prince höfuðborg landsins. Um sjö þúsund heimili eru rústir einar og önnur fimm þúsund mikið skemmd.


Tengdar fréttir

Stormur í kjölfar jarðskjálfta

Hitabeltisstormurinn Grace skall á Haítí í gærkvöldi aðeins tveimur dögum eftir öflugan jarðskjálfta sem kostað hefur rúmlega fjórtán hundruð manns lífið. Um sex þúsund manns slösuðust og þúsundir bygginga eyðilögðust.

Í kapphlaupi við tímann að ná til nauðstaddra

Hjálparstarfsmenn etja nú kapphlaup við tímann til að ná til nauðstaddra eftir jarðskjálftann mikla á Haíti áður en hitabeltisstormur gengur á land í kvöld. Forsætisráðherra landsins segir engan tíma mega missa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×