Innlent

„Er öllum sama um börnin og kennarana í Foss­vogs­skóla?“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tengibyggingin, eða klósettgangurinn eins og flestir myndu jafnvel kalla hana. 
Tengibyggingin, eða klósettgangurinn eins og flestir myndu jafnvel kalla hana.  facebook/G. Svana Bjarnadottir

Er öllum sama um börnin og kennarana í Foss­vogs­skóla? Að þessu spyr for­eldri tveggja barna í ­skólanum sig í harð­yrtri færslu á Face­book þar sem hún gagn­rýnir fram­ferði Reykja­víkur­borgar í málinu, sem hún segir hafa logið, svikið og verið með hor­tug­heit.

Myglu­skemmdir hafa haft á­hrif á skóla­starfið í Foss­vogs­skóla síðustu ár. Raka­skemmdir eru enn til staðar í hluta bygginga skólans og þá fannst asbest í glugga­kistum í byggingunum Vestur­landi og Megin­landi.

Skóla­starfið á því að fara fram á tveimur stöðum í vetur; annars vegar í Foss­vogi í færan­legum kennslu­stofum og í byggingunni Út­garði og hins vegar í Korpu­skóla. Bráða­birgða­skúr sem átti að taka á móti yngsta skóla­stiginu í Foss­vogi er þó ekki til­búinn og því munu krakkarnir í 1. til 4. bekk fá kennslu í Víkinni, fé­lags­heimili Víkings, þangað til.

„Í tvö og hálft ár höfum við barist með kjafti og klóm við báknið Reykja­víkur­borg um á­sættan­lega kennslu­að­stöðu fyrir börnin okkar. Í tvö og hálft ár höfum við rekið okkur á hvern vegginn á fætur öðrum, lygarnar, svikin og hor­tug­heitin sem við höfum mætt af hálfu Reykja­víkur­borgar eiga sér vart for­dæmi,“ skrifar Guð­ríður Svana Bjarna­dóttir for­eldri á Face­book síðu sinni um málið í kvöld.

Börnin fái kennslu á skítugum klósettgangi

Hún segist ekki hafa verið yfir sig hrifna þegar hún heyrði af því að börnin ættu að fá að­stöðu í Víkinni en á­kvað að eigin sögn að gefa því séns.

„Botninn tók svo úr í dag þegar okkur var til­kynnt að börnin fengju bara að­stöðu á neðri hæðinni í Víkinni af því Víkingur er ekki til í að gefa eftir að­gang að há­tíðar­salnum,“ skrifar hún.

Krakkarnir fá því tvö rými á neðri hæð hússins; annars vegar tengi­bygginguna, sem Guð­ríður lýsir sem „skítugum og mjög ó­vist­legum klósett­gangi“ og má sjá á myndinni hér efst í fréttinni og hins vegar Ber­serkja­salinn svo­kallaða. Börn í 2. og 3. bekk eiga að vera í tengi­byggingunni, eða klósett­ganginum, en þau eru um 90 talsins.

„Skóla­stjóranum finnst þetta bara frá­bært og skilur ekkert í því að kennarar og for­eldrar séu ó­sáttir,“ skrifar Guð­ríður.

... vertu til að leggja hönd á plóg... segir á Fossvogsskólaskiltinu.vísir/Vilhelm Gunnarsson

„Ég er gjör­sam­lega miður mín yfir þessu og alveg rosa­lega reið. Hvernig á ég að bjóða barninu mínu upp á þennan hrylling? Er þetta í al­vöru boð­legt? Myndu Dagur B. Eggerts­son og Skúli Helga­son vera sáttir við að börnin þeirra yrðu sett í þessa stöðu?“ spyr hún sig.

„Ég veit ekki hvað hægt er að gera til þess að fólkið sem stýrir borginni mæti í vinnuna og sinni henni af al­vöru.“

Mikilvægt að verja af kappi allt íþróttastarf Víkings

Fyrir­hugað er að skóla­starfið verði þarna í þrjár vikur en að sögn Guð­ríðar lýkur grenndar­kynningu bráða­birgða­skúranna, sem eiga þá að taka við í Foss­voginum, næsta mið­viku­dag og þá eigi eftir að setja þá upp og tengja við raf­magn og vatn.

Í pósti sem Ingi­björg Ýr og Árni Freyr, stjórn­endur í Foss­vogs­skóla, sendu á for­eldra í kvöld segir að sam­komu­lag sé milli í­þrótta­fé­lagsins Víkings og skólans um að „verja af kappi allt í­þrótta­starfs Víkings sem er á góðri siglingu í knatt­spyrnunni“.

„Á sama tíma og við hugum að því að verja í­þrótta­starf Víkings þá huga þeir að vel­sæld okkar. Þannig hagnast báðir aðilar,“ segja þau. Nem­endur verða fluttir milli Foss­vogs­skóla og hinna staðanna þar sem kennslan fer fram með rútum á morgnana og í lok dags.

„Það kann að koma ein­hverjum spánskt fyrir sjónir að vera í Víkings­heimilinu með starf­semi 2. til 4. bekkjar og það er skiljan­legt. Við þurfum því að hafa í huga að skólinn er annað og meira en hús­næðið sem hýsir starf­semina; hann er fyrst og fremst mann­auðurinn sem þar er; nem­endur, starfs­fólkið og svo þið for­eldrarnir,“ segir í póstinum.


Tengdar fréttir

Byggja eininga­hús við Foss­vogs­skóla fyrir kennslu í vetur

Hluti nemenda í Fossvogsskóla mun áfram sækja nám í Korpuskóla í Grafarvogi í haust á meðan verið er að vinna bug á myglu í húsnæði skólans í Fossvogi. Skólarnir tveir voru sameinaðir í vor og verður fyrirkomulagið áfram þannig, að minnsta kosti að hluta.

Ekki kennt í Fossvogsskóla næsta vetur

Frekari viðgerða er þörf á húsnæðis Fossvogsskóla og verður skólastarfsemi í Korpuskóla næsta vetur af þeim sökum. Foreldrum barna við skólann var tilkynnt þetta eftir fund skólaráðs Fossvogsskóla í kvöld. Asbest fannst meðal annars í gluggakistum í skólabyggingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×