Fótbolti

Með skaddað lið­band og ó­víst með þátt­töku hans í komandi lands­leikjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alfreð í leik með Augsburg.
Alfreð í leik með Augsburg. Mario Hommes/Getty Images

Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason er með sködduð liðbönd í ökkla og verður að öllum líkindum ekki með íslenska landsliðinu er það spilar þrjá leiki í undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í byrjun septembermánaðar.

Þetta kemur fram á þýska miðlinum BR 24. Þar er rætt við þjálfara Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni, Markus Weinzierl, um leik helgarinnar. 

Hann staðfestir að Alfreð sé með sködduð liðbönd á ökkla og verði ekki með um helgina.

Alfreð spilaði klukkutíma í bikarleik gegn Greifswalder FC þann 7. ágúst en var hvergi sjáanlegur þegar Augsburg tapaði 0-4 á heimavelli gegn Hoffenheim í fyrstu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar.

Meiðsli líkt og þau sem Alfreð er að glíma við taka venjulega um 4-6 vikur að jafna sig og því er frekar ólíklegt að hann geti tekið þátt í landsleikjum Íslands gegn Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í upphafi septembermánaðar.

Alfreð Finnbogason á að baki 61 A-landsleik og hefur skorað í þeim 15 mörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×