Fótbolti

Klopp býður Fabinho stuðning eftir föðurmissinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Faðir Fabinho lést í vikunni.
Faðir Fabinho lést í vikunni. Paul Ellis - Pool/Getty Images

Brasilíumaðurinn Fabinho, miðjumaður Liverpool á Englandi, æfði ekki með liðinu á fimmtudag vegna fráfalls föður hans. Hann verður líklega ekki með liðinu gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Rebecca Tavares, kona Fabinho, greindi frá fráfalli tengdaföður síns, Joao Roberto, á samfélagsmiðlum í gær. 

Tengdafaðir. Þín verður ávallt minnst með þetta bros og ástríðunnar sem þú hafðir fyrir heiminum,“ sagði hún meðal annars í kveðju á Instagram.

Búist er við að Fabinho fái leyfi sökum áfallsins en ólíklegt þykir að hann muni leika með Liverpool gegn Burnley í dag.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var spurður út í Fabinho á blaðamannafundi í aðdraganda leiksins í gær. Hann segir Fabinho fá sinn stuðning.

„Ég vil segja að þetta er einkamál. Fabinho er hér og gerir það sem hann getur,“ sagði Klopp. „Við finnum allir til með honum og stöndum með honum, við sendum honum og fjölskyldu hans allir innilegar samúðarkveðjur, alla þá ást sem við getum gefið. Annars er þetta einkamál.“

Árið hefur verið mörgum hjá Liverpool erfitt utan vallar en liðsfélagi og landi Fabinho, Alisson Becker, missti föður sinn af slysförum í febrúar. Þá missti Klopp móður sína í janúar á þessu ári.

Fabinho kom inn á sem varamaður er Liverpool vann 3-0 útisigur á Norwich í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar síðustu helgi. Liðið spilar sinn fyrsta heimaleik í dag er Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley koma í heimsókn á Anfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×