Fótbolti

Guardiola fær hjálp frá Tommy Fleetwood við að lækka „afar slaka“ forgjöfina

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guardiola útilokar að þjálfa fram á háan aldur.
Guardiola útilokar að þjálfa fram á háan aldur. Giorgio Perottino/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist ekki ætla að þjálfa fram á háan aldur. Hann þurfi tíma til að bæta slaka forgjöf sína í golfi og býr að öflugum kennara til að hjálpa sér við það.

Guardiola sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær í aðdraganda leiks Manchester City við nýliða Norwich í ensku úrvalsdeildinni klukkan 14:00 í dag. Hann var þar spurður hvort hann sæi fyrir sér að vera enn á fullu í þjálfun fram á áttræðisaldur.

„Alls ekki. Ég þarf að lækka forgjöfina mína.“ sagði Guardiola sem var þá spurður hver forgjöf hans væri.

„Hún er afar slök, vegna skorts á stöðugleika hjá mér sem golfspilara,“

„En þegar ég hætti mun ég lækka forgjöfina, ná henni vel niður, klárlega. Ég er með góðan kennara í Tommy Fleetwood, hann gefur mér góð ráð og æfingar.“

„Ég spila með honum einu sinni ári. Hann er jafnvel uppteknari en ég. En þegar við getum spilum við saman.“ segir Guardiola.

Fleetwood er þrítugur ensku kylfingur sem er níundi á heimslistanum í golfi. Hann leitar enn síns fyrsta sigurs á risamóti en hann varð annar á US Open 2018 og annar á Opna breska 2019.

Tommy Fleetwood er níundi á heimslistanum í golfi.Mike Ehrmann/Getty Images

Manchester City byrjaði titilvörn sína í ensku úrvalsdeildinni á 1-0 tapi fyrir Tottenham Hotspur síðustu helgi og tapaði sömuleiðis 1-0 fyrir Leicester City í leik um Samfélagsskjöldinn viku fyrr. Guardiola vonast því eflaust eftir fyrsta sigri liðsins á leiktíðinni gegn nýliðum Norwich í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×