Innlent

Vilja að farið verði var­lega í fulla bólu­setningu á börnum

Eiður Þór Árnason skrifar
Fyrirhugað er að bjóða upp á bólusetningu fyrir börn á aldrinum 12 til 15 ára á næstu dögum. 
Fyrirhugað er að bjóða upp á bólusetningu fyrir börn á aldrinum 12 til 15 ára á næstu dögum.  Vísir/vilhelm

Tveir hjartalæknar leggja til að varlega verði farið í fulla bólusetningu hjá börnum. Þeir skora á sóttvarnayfirvöld að gefa ekki fleiri skammta af bóluefnum en nauðsynlegt er með tilliti til ávinnings og áhættu.

Vísa læknarnir til þess að heil­brigð börn án alvarlegra und­ir­liggj­andi sjúk­dóma séu í afar lít­illi áhættu á að veikj­ast al­var­lega í kjöl­far kór­ónu­veiru­sýk­inga. Áhætta bólu­setn­ing­ar sé sömu­leiðis lít­il en ekki hverf­andi. Þetta kemur fram í grein hjartalæknanna Sigfúsar Örvars Gizurarsonar og Kristjáns Guðmundssonar sem birtist í Morgunblaðinu.

„Þannig hafa ung­menni á Íslandi greinst með hjarta­vöðva­bólgu og bólgu í goll­urs­húsi eft­ir bólu­setn­ing­ar. Oft er um að ræða væg ein­kenni og sjúk­dóm, en slík­ir sjúk­dóm­ar geta valdið var­an­leg­um skaða á hjarta­vöðvann og áhrif­in koma oft ekki fram til fulls fyrr en mörg­um árum síðar. Af gögn­um frá Banda­ríkj­un­um virðast þess­ir fylgi­kvill­ar koma fram mun oft­ar eft­ir seinni bólu­setn­ingu. Einnig sýna gögn að dreng­ir og ung­ir karl­menn séu í sér­stak­lega mik­illi áhættu fyr­ir þess­um fylgi­kvilla.“

Foreldrar kynni sér málin vel

Sigfús og Kristján árétta að með þessu sé ekki á neinn hátt hallað á ávinning af fullri bólusetningu hjá fullorðnum sem hafi ekki fyrri sögu um kórónuveirusmit. Þar sé ávinningurinn langt umfram áhættu.

„For­eldr­ar barna og ung­menna ættu að kynna sér vel ávinn­ing og áhættu af bólu­setn­ingu og við óvissu er rétt að bíða og sjá hvað set­ur. Ef for­eldr­ar hafa góðar ástæður fyr­ir bólu­setn­ingu ætti að íhuga að þiggja bara fyrri bólu­setn­ingu meðan frek­ari gagna er aflað.“

Einnig telja læknarnir hæpið að hvetja ungmenni sem hafa fengið bóluefni Janssen að fá örvunarskammt af öðru bóluefni. 

„Þetta er að okk­ar mati hæpið þar sem ávinn­ing­ur hjá þess­um hóp er mjög lít­ill, og hætta á fylgi­kvill­um er til staðar og get­ur vegið á móti litl­um ávinn­ingi. Þessi hóp­ur þarf að fá mjög skýr­ar upp­lýs­ing­ar þar sem þessi aðgerð hef­ur ekki form­lega hlotið nægj­an­lega rann­sókn. Sér í lagi gild­ir þetta um ung­menni sem eru ekki í áhættu­hóp­um,“ segir í grein þeirra í Morgunblaðinu.

Þá gagnrýna Sigfús og Kristján að ungmenni sem hafi áður greinst með kórónuveirusýkingu hafi verið boðuð í tvær bólusetningar þó gögn sýni að þau séu í lítilli áhættu fyrir alvarlegri sýkingu. Hjá þess­um hópi sé afar ólík­legt að tvær bólu­setn­ing­ar hafi ávinn­ing um­fram einn bólu­setn­ing­ar­skammt.

„Til að það mikla traust sem al­menn­ing­ur ber til sótt­varn­araðgerða glat­ist ekki er mik­il­vægt að ekki sé of geyst farið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×