Fótbolti

Ísland án margra lykilmanna í komandi verkefni í undankeppni HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, kynnti leikmannahóp Íslands í dag.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, kynnti leikmannahóp Íslands í dag. Mynd/skjáskot

Landsliðsþjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen kynntu í dag landsliðshóp sinn fyrir komandi verkefni í undankeppni heimsmeistaramótsins. Ísland varður án margra lykilmanna. Henry Birgir Gunnarsson var í Laugardalnum og ræddi við Arnar Þór eftir fundinn.

Ísland spilar þrjá leiki á Laugardalsvelli í byrjun næsta mánaðar, en Arnar Þór segir að liðið hafi vonast til að hafa allavega Aron Einar með, en hann greindist með kórónaveiruna á dögunum. Ásamt Aroni vantar Gylfa Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason og Ragnar Sigurðsson.

„Það var svona það sem við vorum að vonast til, að hann gæti komið og við myndum í rauninni bara sjá til,“ sagði Arnar í samtali við Stöð 2.

„Það var í rauninni bara í gær sem að það varð ljóst að það væri bara ekki hægt, hann var ennþá með jákvætt próf. Aron er bara veikur og er bara á undirbúningstímabili. Hann hefur ekkert verið að spila nánast bara síðan hann spilaði með okkur í júní.“

„Þetta var erfið ákvörðun, og þetta var líka rosalega erfið ákvörðun fyrir Aron að stíga út.“

Á blaðamannafundinum fyrr í dag þar sem að leikmannahópurinn var kynntur kom einnig fram að Lars Lagerbäck er ekki lengur í þjálfarateymi landsliðsins. Arnar Þór tók þá ákvörðun að halda áfram án Svíans.

„Eins og staðan er núna þá er það bara þannig að ég má alltaf leita til Lars og ég er búinn að eiga mörg mjög góð samtöl við hann. Ég hef alltaf sagð það að það eru fáir í knattspyrnuheiminum sem ég ber meiri virðingu fyrir.“

„Þetta var bara ákvörðun sem ég þurfti að taka sjálfur sem þjálfari. Þó að það sé mjög góð tenging á persónulegum nótum þá eru aðrir hlutir sem að spila líka inn í í þjálfarateymi.“

„Þetta var ákvörðun sem að ég tók og þetta var ákvörðun sem að ég ræddi við Lars og hann var bara eins og hann er, algjör herramaður með það og tók því frábærlega.“

Viðtalið við Arnar Þór má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×