Jude Bellingham og Raheem Sterling kváðust báðir hafa orðið fyrir barðinu á stuðningsmönnum Ungverja í leiknum í gærkvöld. England vann leikinn 4-0 en það er stærsta tap Ungverja á heimavelli í sögu undankeppninnar.
Leikmenn Englendinga voru einnig grýttir á leiknum þar sem bjórglösum og allskyns smáhlutum var fleygt úr stúkunni og þá var einnig blysi hent inn á völlinn.
HEADSTRONG. pic.twitter.com/mkVi1oLed6
— Raheem Sterling (@sterling7) September 3, 2021
Enska knattspyrnusambandið hefur harðlega gagnrýnt athæfi ungversku stuðningsmannana, sem og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Bellingham setti inn færslu á samfélagsmiðilinn Twitter í gær þar sem hann sagði: „Þakka ykkur fyrir allar stuðningskveðjunar. Þetta er hluti af leiknum og verður það þar til almennilegar refsingar verða teknar upp af þeim sem valdið hafa. Við getum ekki leyft hatrinu að sigra, og brosum þangað til.“
Thank you for all the messages of support from last night. Part of the game and always will be until proper punishments are put in place by those with the power. We can t let hate win, keep smiling! pic.twitter.com/nP3zarQBQk
— Jude Bellingham (@BellinghamJude) September 3, 2021
Í áhorfendabanni en samt ekki
Ungverjar voru dæmdir í þriggja leikja áhorfendabann af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, eftir hatursfull skilaboð stuðningsmanna liðsins í garð samkynhneigðra á leikjum sem fram fóru á Puskás-vellinum á EM í sumar.
Stuðningsmenn gátu þrátt fyrir það komið á leik Ungverja við England í gær þar sem leikurinn heyrir undir FIFA en ekki UEFA, þar sem um undankeppni heimsmeistaramótsins er að ræða. Leikurinn er því tæknilega séð á vegum FIFA og var bann UEFA því ekki í gildi.
Bæði sambönd hafa sætt gagnrýni vegna þess. Þar á meðal frá samtökum sem berjast gegn kynþáttaníði í fótbolta, en samtökin Kick it Out og Show Racism the Red Card hafa bæði harðlega gagnrýnt að stuðningsmenn hafi verið leyfðir á leiknum.
Nú eiga Ungverjar yfir höfði sér bann frá FIFA til viðbótar við UEFA-bannið.