Pólverjar fyrstir til að taka stig af Englendingum

Harry Kane skoraði mark Englendinga í kvöld.
Harry Kane skoraði mark Englendinga í kvöld. Michael Regan/Getty Images

Damian Szymanski var hetja Pólverja þegar hann tryggði Pólverjum 1-1 jafntefli gegn Englendingum í toppslag I-riðils í undankeppni HM 2022.

Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur og bauð ekki upp á mörg opin marktækifæri. Englendingar voru þó heldur meira með boltann og stjórnuðu leiknum að einhverju leiti.

Því var markalaust þegar að flautað var til hálfleiks og það sama var uppi á teningnum í upphafi seinni hálfleiks og þeim fyrri. Englendingar héldu boltanum ágætlega, en erfitt reyndist að finna opin marktækifæri.

Harry Maguire komst nálægt því að skora eftir rúmlega klukkutíma leik þegar hann skallaði aukaspyrnu Luke Shaw í stöngina.

Á 72. mínútu tók markahrókurinn Harry Kane málin í sínar eigin hendur þegar hann fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Pólverja frá fyrrum samherja sínum Kyle Walker. Kane hlóð í skot af löngu færi sem Wojciech Szczesny átti ekki möguleika í og kom englendingum þar með í 1-0.

Það stefndi allt í 1-0 sigur Englendinga þangað til á annarri mínútu uppbótartíma þegar að Damian Szymanski skallaði fyrirgjöf Robert Lewandowski í netið og tryggði Pólverjum þar með jafntefli.

Englendingar tróna enn á toppi riðilsins með 16 stig eftir sex leiki. Pólverjar sitja í þriðja sæti með 11 stig, einu stigi minna en Albanía í öðru sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira