Innlent

Vilja styrkja frekar sam­bandið við Fær­eyjar

Þorgils Jónsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson hitti Höllu Nolsøe Poulsen, sendimanni Færeyja á Íslandi, og kynnti fyrir henni næyja skýrslu um samskipti þjóðanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson hitti Höllu Nolsøe Poulsen, sendimanni Færeyja á Íslandi, og kynnti fyrir henni næyja skýrslu um samskipti þjóðanna.

Margvísleg tækifæri eru til þess að efla tvíhliða tengsl og samstarf Íslands og Færeyja á hinum ýmsu sviðum, meðal annars hvað varðar viðskipti, heilbrigðismál og menntamál. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin er af starfshóp sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, skipaði.

Starfshópnum var falið í marsmánuði að kortleggja tvíhliða samskipti þjóðanna tveggja og gera tillögur um áþreifanlegar aðgerðir eða verkefni til efla tengslin enn frekar. Lokaskýrslan var svo birt á vef utanríkisráðuneytisins í dag.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að margvíslegt samstarf sé á milli Íslands og Færeyja, bæði formlegt og óformlegt, einnig á norrænum eða vestnorrænum vettvangi. Fjölmörg sóknarfæri liggi í því að efla enn frekar tvíhliða tengsl og samstarf á milli þjóðanna, ekki síst á vettvangi efnahags-, menningar- og stjórnmála.

Starfshópurinn leggur áherslu á þau svið þar sem minna hefur verið um tvíhliða samstarf og aðgerða sé þörf til að efla samvinnu.

Nýtt námsefni um tengsl við Færeyjar

Meðal annars skuli vinna að skilvirkari flutningsleiðum ferskvara milli landanna, auka tvíhliða markaðsstarf til að kynna löndin sem ákjósanlegan áfangastað fyrir íbúum landanna tveggja, og meta tækifæri til að auka nýtingu Færeyinga á heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa á Íslandi.

Þá skuli einnig útbúa „nútímalegt námsefni fyrir íslenska grunnskóla þar sem fjallað yrði um Færeyjar fyrr og nú með heildstæðum hætti og lögð áhersla á tengsl Íslands og Færeyja“ og að samstarf íslenskra og færeyskra listamanna verði aukið með því að koma á fót miðstöð skapandi greina.

„Markmið okkar er að hrinda þessum tillögum í framkvæmd á næstu árum og renna þannig sterkari stoðum undir samband þjóðanna og á sama tíma skapa forsendur fyrir nýjum og spennandi tækifærum,“ segir Guðlaugur Þór.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×