Erlent

Eyjafrýnan nú talin í útrýmingarhættu

Kjartan Kjartansson skrifar
Eyjafrýna á strönd Kómódóþjóðgarðsins í Indónesíu. Hætta er nú á að eðlurnar verði útdauðar í náttúrunni.
Eyjafrýna á strönd Kómódóþjóðgarðsins í Indónesíu. Hætta er nú á að eðlurnar verði útdauðar í náttúrunni. Vísir/EPA

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN) telja nú að eyjafrýnan, sem einnig er nefnd kómódódrekinn, sé í útrýmingarhættu. Spáð er að búsvæði þessarar stærstu eðlutegundar á jörðinni minnki um að minnsta kosti 30% á næstu 45 árum.

Fram að þessu hefur eyjafrýnan verið talin standa höllum fæti en um helgina ákváðu samtökin að skilgreina tegundina í útrýmingarhættu. Craig Hilton-Taylor, yfirmaður válista samtakanna segir við New York Times að tegundinni hafi hrakað og við henni blasi útrýming.

Eyjafrýnan er uppruninn á Kómódóeyju og nærliggjandi eyjum í Indónesíu. Þjóðgarðurinn á Kómódóeyju er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Sérfræðingar telja stofninn þar stöðugan en að horfur hans til lengri tíma litið séu dökkar.

Umhverfisbreytingar hafi sérstaklega mikil áhrif á eyjafrýnur því búsvæði hennar er afar takmarkað. Hækkun sjávarstöðu vegna loftslagsbreytinga af völdum manna og hækkandi hitastig og vaxandi ágangur manna er talinn munu ganga verulega á búsvæðið á næstu áratugum.

Talið er að um 5.000 til 8.000 eyjafrýnur hafi verið á jörðinni fyrir aldarfjórðungi. Nú áætlar IUCN að um 1.380 fullorðnar frýnur og tvö þúsund ungviði séu eftir í náttúrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×