Erlent

Bóluefni Pfizer sagt verja fimm til ellefu ára börn

Kjartan Kjartansson skrifar
Byrjað hefur verið að bólusetja eldri börn víða. Tilraunir Pfizer benda til þess að bóluefni þess sé virkt og öruggt fyrir börn fimm til ellefu ára.
Byrjað hefur verið að bólusetja eldri börn víða. Tilraunir Pfizer benda til þess að bóluefni þess sé virkt og öruggt fyrir börn fimm til ellefu ára. AP/David Goldman

Lyfjarisinn Pfizer segir að bóluefni sitt gegn kórónuveirunni verndi börn á aldrinum fimm til ellefu ára. Fyrirtækið ætlar sér að sækja um leyfi til að gefa börnum bóluefnið í Bandaríkjunum á næstunni.

Bóluefnið Pfizer og þýska tæknifyrirtækisins BioNTech er nú þegar í boði fyrir börn niður í tólf ára gömul. Aukin eftirspurn er eftir bóluefni fyrir börn eftir að mörg ríki slökuðu á sóttvarnaaðgerðum og skólastarf fór aftur í gang. Mun fleiri börn smitast nú en fyrr í faraldrinum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Í tilraununum sínum gaf Pfizer yngri börnum minni skammt af bóluefni sínu, um þriðjung skammtsins sem fullorðnir fá. Eftir seinni skammt sýndu börnin jafnsterkt ónæmissvar og unglingar og ungt fólk sem fékk fullan skammt, að sögn fyrirtækisins.

Þá upplifðu yngri börnin svipaðar eða jafnvel færri aukaverkanir en unglingar, þar á meðal eymsli á stungustað, hita eða beinverki.

Bill Gruber, varaforseti Pfizer, segir að fyrirtækið ætli að sækja um leyfi til neyðarnotkunar á bóluefninu fyrir aldurshópinn fimm til ellefu ára til Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna (FDA) fyrir lok þessa mánaðar. Fljótlega verði sótt um leyfi í Evrópu og í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×