
Þetta er í fyrsta skipti sem merkið er fáanlegt á Íslandi svo að ilmvatnsáhugafólk getur nú lagt leið sína á Hverfisgötuna og lyktað af alls 18 ilmum.
„Við opnuðum Mikado í desember 2020 og þetta merki var eitt af þeim merkjum sem var efst á listanum okkar. Við hófum samtalið við þá alveg í byrjun en við höfum báðir verið miklir aðdáendur merkisins til fjölda ára,“ segir Einar Guðmundsson, annar eigandi Mikado.
Kraftmikil en fíngerð ilmvöt
Ilmvatnsmerkið Le Labo fæddist í Grasse í Frakkland sem er svokölluð höfuðborg ilmvatnsgerðar sem staðsett er á frönsku Rivíerunni. Merkið þróaðist svo og óx í New York borg þar sem ilmvatnsgerðarmennirnir Eddie Roschi og Fabrice Penot opnuðu sína fyrstu verslun í febrúar 2006.
Klassíska lína Le Labo samanstendur af 18 ilmvötnum og hefur merkið fengið mikla athygli og lof fyrir fíngerða en á sama tíma kraftmikla ilmi.
„Umbúðirnar eru líka mjög einstakar og eru nöfn ilmanna tengd þeim ilmnótum sem eru mest áberandi í ilmvatninu,“ segir Einar að lokum.
Hér fyrir neðan má sjá myndir úr fögnuðinum.





