Þættirnir eru framleiddir af Vísi og Stöð 2 og hófu göngu sína í fyrra. Þeir hafa vakið mikla athygli en í þáttunum segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, RAX, sögur á bakvið fjölda þeirra augnablika sem honum hefur tekist að festa á filmu í gegnum árin. Myndirnar sem fjallað er um hafa birst í bókum, fjölmiðlum og á sýningum um allan heim.
Aðrir þættir sem voru tilnefndir sem Menningarþáttur ársins voru Sóttbarnalögin, Framkoma 2, Menningarnótt heima og Spegill spegill.

Alls komu út 35 þættir í fyrstu þáttaröð RAX Augnablika. Hægt er að sjá fyrri þætti á undirsíðu þáttanna hér á Vísi en einnig eru þættirnir aðgengilegir á efnisveitunni Stöð 2+.
Önnur þáttaröð hófst síðan í gær og segir Ragnar í fyrsta þætti frá eftirminnilegri ferð til Mykines í Færeyjum. Færeyjar eru einn af uppáhalds stöðum Ragnars og segir hann að þar sé besta fólk í heiminum. Hægt er að sjá þáttinn hér fyrir neðan.
RAX er einn allra fremsti ljósmyndari landsins og margverðlaunaður. Hann hefur myndað marga mikilvæga viðburði Íslandssögunnar og auk þess gefið út fjölda einstakra ljósmyndabóka sem hafa hlotið verðskuldaða athygli hér heima og erlendis eins og Andlit norðursins, Jöklar og margar fleiri. Hann starfaði um árabil á Morgunblaðinu en gekk til liðs við Vísi á síðasta ári.