Innlent

Hópur Íslendinga handtekinn í Kaupmannahöfn

Snorri Másson skrifar
Tveir Íslendingar eru í gæsluvarðhaldi í Kaupmannahöfn vegna líkamsárásar.
Tveir Íslendingar eru í gæsluvarðhaldi í Kaupmannahöfn vegna líkamsárásar. Nurphoto/GettyImages

Hópur Íslendinga var handtekinn vegna líkamsárásar í Kaupmannahöfn um miðjan síðasta mánuð. Tveir þeirra hafa verið í haldi í rúmar tvær vikur vegna gruns um alvarlega líkamsárás og einn hefur þegar verið kærður.

Árásin átti sér samkvæmt upplýsingum fréttastofu stað í Kaupmannahöfn helgina 17.-19. september. Alla vega einn á að hafa slasast mjög alvarlega í átökunum.

Til mjög harðvítugra átaka kom á milli fjölda einstaklinga og fimm Íslendingar blönduðust í átökin. Þeir voru allir handteknir í fyrstu en eftir yfirheyrslur og nánari rannsókn var tveimur þeirra umsvifalaust sleppt án ákæru enda var ekki talið að hlutdeild þeirra að málinu hafi verið veruleg.

Þrír urðu eftir í varðhaldi. Einn þeirra var látinn laus eftir að hafa verið ákærður en síðustu tveir eru enn í haldi lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Þeir hafa því verið það í rúmar tvær vikur, sem er gæsluvarðhald í lengra lagi. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru mennirnir flestir Íslendingar á þrítugsaldri, sem eru ekki búsettir í Kaupmannahöfn allajafna.

Mál af þessum toga á borði utanríkisþjónustunnar

Lögreglan í Kaupmannahöfn gaf upp í svörum til fréttastofu að sannarlega hefði Íslendingur verið tekinn höndum 20. september vegna líkamsárasar og þar er lögreglan trúlega að vísa til þess sem hefur verið ákærður en gengur laus. 

Ekki voru veittar upplýsingar um hina einstaklingana en rannsókn lögreglu er enn í fullum gangi. Embætti ríkislögreglustjóra hér á landi hefur ekki getað staðfest málið þegar fréttastofa hefur óskað eftir því.

Í svari frá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins er það staðfest að mál af þessum toga er á borði skrifstofunnar, en ráðuneytið veitir ekki efnislegar upplýsingar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×