Englendingar misstigu sig gegn Ungverjum

John Stones skorar mark Englendinga gegn Ungverjum í kvöld.
John Stones skorar mark Englendinga gegn Ungverjum í kvöld. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Englendingar og Ungverjar gerðu 1-1 jafntefli þegar að liðin mættust á Wembley í undankeppni HM 2022 í kvöld. Sigur hefði tryggt Englendingum umspilssæti.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og virtust mun líklegri til að brjóta ísinn í upphafi leiks. Það dró þó til tíðinda hinumegin á vellinum þegar að Luke Shaw var dæmdur brotlegur innan vítateigs á 23. mínútu leiksins.

Leikmenn enska liðsins voru ekki alveg nógu sáttir við dómara leiksins, en dómurinn stóð og Roland Sallai skoraði framhjá Jordan Pickford í marki Englendinga.

John Stones jafnaði metin fyrir Englendinga rúmum fimm mínútum fyrir hálfleik og staðan var því 1-1 þegar að gengið var til búningsherbergja.

Englendingar voru áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik og sköpuðu sér nokkur sæmileg færi. Ekki tókst þeim þó að koma boltanum yfir marklínuna og niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli.

Englendingar eru enn á toppi I-riðils með 20 stig eftir átta leiki. Ungverjar sitja í fjórða sæti riðilsins með 11 stig, og það þarf ansi margt að ganga upp í seinustu tveim umferðunum svo þeir vinni sér inn sæti á HM í Katar á næsta ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira