Friðrik krónprins Dana kom til landsins síðdegis í gær og hóf stutta Íslandsheimsókn sína með kvöldverði á Bessastöðum. Markmiðið er að styrkja viðskiptatengsl og samstarf Íslands og Danmerkur á sviði sjálfbærra orkulausna.
Í morgun flutti hann ávarp við setningu fundar dansk-íslensku sendinefndarinnar í Grósku, hugmyndahúsi í Vatnsmýri. Hann lagði áherslu á gott samband ríkjanna og sagði bæði Íslendinga og Dani meðvitaða um að bregðast þurfi þurfi við loftslagsvánni með skilvirkum hætti og nýjum lausnum.
Hann sagði heimsóknin vera lið í því að styrkja samband ríkjanna enn frekar í þróun grænna lausna. Fulltrúar framsæknustu fyrirtækja Danmerkur, Íslands og Grænlands á sviði sjálfbærra orkumála muni kynna nýjar tæknilausnir í dag sem Friðrik sagði nauðysnlegar til þess takast á við áskoranir næstu ára.
„Með nýsköpun og framsækinni tækni munum getum við tekist á við loftslagsvandann,“ sagði Friðrik.
Að loknum fundinum hélt krónprinsinn í Hellisheiðavirkjun og Carbfix og síðan í Orkuveitu Reykjavíkur. Eftir hádegi fundar hann með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra, áður en hann skoðar danska varðskipið HDMS Triton sem liggur við Reykjavíkurhöfn, ásamt forseta Íslands og utanríkisráðherra. Botninn verður sleginn í daginn og jafnframt heimsóknina með móttöku í danska sendiráðinu síðdegis.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í Grósku í morgun að rétta nálgunin við loftslagsvandanum væri blanda af raunsæi, bjarstýni, þrautseigju og nýsköpun. Íslendingar geti vonandi sýnt vinaþjóð sinni Dönum áræðni í verki.