Erlent

Auð­kýfingurinn Robert Durst dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Robert Durst þarf að dúsa í steininum til æviloka.
Robert Durst þarf að dúsa í steininum til æviloka. Gary Coronado/Los Angeles Times via AP

Auðkýfingurinn Robert Durst, sem öðlaðist frægð þegar hann var viðfangsefni heimildarþáttaraðar HBO, The Jinx, hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Susan Berman árið 2000.

Berman fannst látin á heimili sínu með skotsár á hnakka árið 2000. Hún hafði verið besta vinkona Dursts um árabil og hafði skömmu fyrir morðið játað fyrir vinum sínum að hún hefði skáldað fjarvistarsönnum fyrir Durst í tengslum við rannsókn á hvarfi konu hans, Kathie Durst, árið 1982.

Durst var sakfelldur fyrir morðið í september en refsingin var ákveðin í dag. Hinn 78 ára Durst á ekki möguleika á reynslulausn og mun því að öllum líkindum ljúka ævinni í fangelsi.

Durst hefur allt frá hvarfi konu sinnar verið grunaður um að hafa komið henni fyrir kattarnef. Hann er einnig grunaður um að hafa myrt mann árið 2001 meðan hann faldi sig fyrir réttvísinni í Texas.

Hann var handtekinn í New Orleans árið 2015, kvöldið áður en lokaþáttur heimildaseríunnar The Jinx: The Life and Deaths of Robert Durst var sýndur. Í þættinum voru sett fram sönnunargögn um meintan áralangan brotaferil hans og náðist hann á upptöku með földum hljóðnema á baðherbergi muldra í hálfu hljóði „Þarna kom það. Þeir náðu þér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×