Lionel Messi skoraði tvö mörk og tryggði PSG þar með 3-2 sigur gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Kylian Mbappé kom heimamönnum í PSG yfir strax á níundu mínútu eftir stoðsendingu frá Julian Draxler, áður en Andre Silva jafnaði metin fyrir gestina á 28. mínútu.
Staðan var því 1-1 í hálfleik, en Nordi Mukiele kom gestunum í 2-1 forystu eftir tæplega klukkutíma leik.
Þá var komið að Lionel Messi, en hann jafnaði metin fyrir PSG á 67. mínútu, og sjö mínútum síðar kom hann liðinu yfir af vítapunktinum eftir að Mohamed Simakan braut á Kylian Mbappé innan vítateigs.
Heimamenn í PSG fengu svo tækifæri til að gulltryggja sigurinn á 94. mínútu þegar Josko Gvardiol braut á Achraf Hakimi innan vítateigs. Kylian Mbappé fór á punktinn, en skot hans fór framhjá.
Niðurstaðan varð því 3-2 sigur PSG sem er nú á toppi A-riðils með sjö stig eftir þrjá leiki. RB Leipzig er hins vegar enn án stiga í fjórða og neðsta sæti.