Eins og fréttastofa greindi frá í vikunni ruddist lögregla inn á heimili mannsins ásamt fulltrúa Matvælastofnunar með húsleitarheimild til að taka refinn af honum. Hann fannst þó ekki á heimilinu.
Fyrrverandi aðstoðarvarðstjóri lögreglunnar á Selfossi, sem átti sjálfur ref fyrir aldamót, gagnrýndi þessi vinnubrögð í gær.
Matvælastofnun hefur nú beint málinu til lögreglu og eigandi refsins er kominn með lögfræðing.
Og hann telur afar sérstakt hvernig Matvælastofnun hefur keyrt málið áfram.
Refur er hryggdýr en ekki búdýr
Samkvæmt íslenskum lögum er bannað að halda villt dýr. Að hans sögn er þó óljóst hvaða dýr eru villt í augum laganna.
„Það er allavega ljóst í lögum að undanþegin frá skilgreiningunni um villt dýr eru gæludýr," segir Helgi Þorsteinsson lögmaður mannsins.
„Í reglugerð eru gæludýr talin sem hundar, kettir og önnur hryggdýr. Og refur er augljóslega hryggdýr."
Í reglugerðinni sé þó talað um að búdýr geti ekki talist gæludýr og þau talin upp:
„Það eru meðal annars svín, alifuglar, minnkar, sauðfé, geitfé, nautgrip og hross. Þannig við erum komin í nokkrar undantekningar og undantekningar á undantekningum og samt er ekkert að finna um refi," segir Helgi.
„Nú ef að það er ekkert að finna um þá, þá getur maður alveg ímyndað sér að þeir hljóti bara að vera hryggdýr og ef þeir eru hryggdýr þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir geti verið gæludýr."
Gústi ekki óargadýr í búri
Hann telur ekki útilokað að málið fari fyrir dómstóla ef lögregla kýs að halda áfram með það.
Og loks telur hann að Matvælastofnun sé að oftúlka lagaákvæði um að bannað sé að halda villt dýr:
„Þau eru væntanlega sett til að koma í veg fyrir það sem er stundum kallað kjarnatilvik; Ímyndað tilvik sem er akkúrat það sem lögunum er ætlað að stöðva. Og þá getur maður séð fyrir sér að vera hreinlega með óargadýr í búri og eitthvað slíkt og það er það sem ákvæðinu er ætlað að stöðva. Það er bara ekkert upp á teningnum hér," segir Helgi.
„Þess vegna er svo skrýtið að málsmeðferðin sé þannig að um sé að ræða algjört kjarnatilvik sem þurfi að stöðva bara einn tveir og þrír."