Fótbolti

Skoraði og valinn maður leiksins í sínum fyrsta byrjunar­liðs­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar nýtti tækifærið heldur betur vel í dag.
Hákon Arnar nýtti tækifærið heldur betur vel í dag. Twitter/@FCKobenhavn

Hákon Arnar Haraldsson byrjaði sinn fyrsta deildarleik fyrir FC Kaupmannahöfn í dag er liðið fékk Vejle í heimsókn á Parken. Gerði Hákon Arnar sér lítið fyrir og skoraði í 3-0 sigri ásamt því að vera valinn maður leiksins.

Hákon Arnar var eini Íslendingurinn í byrjunarliði FCK en Andri Fannar Baldursson var á bekknum. Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki í leikmannahóp liðsins að þessu sinni.

Jens Stage kom heimamönnum yfir þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn og Hákon Arnar tvöfaldaði forystuna þegar rétt tæplega hálftími var liðinn af leiknum. Staðan 2-0 í hálfleik.

Jonas Wind gerði endanlega út um leikinn með marki á 63. mínútu og unnu heimamenn þægilegan 3-0 sigur. Andri Fannar lék síðustu 18 mínútur leiksins fyrir FCK en á sama tíma var Hákon Arnar tekinn af velli.

Var Hákon Arnar valinn maður leiksins að honum loknum. Sigurinn þýðir að FCK er með 28 stig að loknum 14 leikjum, sex stigum minna en topplið Midtjylland.

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson stóð milli stanga toppliðsins er það vann 3-1 útisigur á Randers fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×