Fótbolti

Smith-Rowe kallaður í A-lands­liðið í fyrsta sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emile Smith Rowe gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik á næstu dögum.
Emile Smith Rowe gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik á næstu dögum. Stuart MacFarlane/Getty Images

Emile Smith Rowe hefur verið kallaður inn í enska A-landsliðið fyrir komandi leiki þess eftir að fjórir leikmenn hafa neyðst til að draga sig úr hópnum. Smith Rowe hefur skorað í þremur deildarleikjum í röð fyrir Arsenal.

Hinn 21 árs gamli miðjumaður hefur spilað frábærlega með Skyttunum undanfarnar vikur og var í dag verðlaunaður með sæti í enska A-landsliðinu. Hann var upphaflega í U-21 árs landsliði Englendinga en Gareth Southgate hefur ákveðið að kalla hann upp í A-landsliðið fyrir leikina gegn Albaníu og San Marínó.

Alls vantar fjóra leikmenn í hópinn sem Southgate valdi en Marcus Rashford, James Ward-Prowse, Mason Mount og Luke Shaw eru allir fjarri góðu gamni sem stendur.

Rashford, sem er tiltölulega nýkominn til baka eftir að hafa farið í aðgerð eftir Evrópumótið í sumar, hefur ákveðið að einbeita sér að komast í sitt fyrra form og hefur því dregið sig úr hópnum.

Shaw fékk heilahristing í 0-2 tapi Man Utd gegn Manchester City samkvæmt frétt Sky Sports og er því ekki leikfær sem stendur. Ward-Prowse er að glíma við veikindi og þá er Mount fjarverandi eftir að hafa þurft að fara í aðgerð hjá tannlækni.

England mætir Albaníu þann 12. nóvember og San Marínó þremur dögum síðar. Sigrar í báðum leikjum og England tryggir þátttöku sína á HM í Katar veturinn 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×